Nöldrið | 14. ágúst 2018 - kl. 13:26
Síðsumars nöldur

Hann er oft ógnvekjandi hraðinn á bílunum sem aka í gegnum Blönduós eftir þjóðveginum. Frá Ámundakinn og upp fyrir hringtorgið er hámarkshraðinn 50 km/klst. Ég leyfi mér að fullyrða að meirihluti bílstjóra ekur þennan spöl á 70-90 km hraða. Það er ekki hikað við að aka fram úr bílum á þessum kafla, enda boðið upp á það með brotinni línu á veginum alla leiðina meira að segja á brúnni og það er óskiljanlegt að ekki sé óslitin lína á þessum vegi. Þarna finnst mér að bæjaryfirvöld hljóti að geta gripið inní og farið fram á við Vegagerðina að hvíta línan sé óslitin í gegnum þéttbýlið.

Það er svo spurning hvort ökumenn fara eftir þessum línum, svo er a.m.k. ekki að sjá víða úti á þjóðveginum þar sem tekið er fram úr bílum hvar sem er, meira að segja á blindhæðum. Í nöldri mínu í vor nefndi ég þá hugmynd að Melabrautin yrði opnuð upp úr, að Votmúla, til að losa bæjarbúa utan ár, sem erindi eiga þangað, við að setja sig í hættu við að aka út á þjóðveg 1 þegar umferðin er sem mest. Þessari hugmynd er hér með aftur komið á framfæri. Þá hlýtur að koma að því að gerð verði hættuminni að- og frákeyrsla að tjaldstæðinu og orlofshúsunum í Glaðheimum en hún er varasöm svo ekki sé meira sagt eins og hún er í dag. Hringtogssýnishornið sem við höfum mátt búa við árum saman er svo kafli út af fyrir sig. Það eru nokkur ár síðan lofað var að það yrði stækkað, svo það stæði undir nafni og yki öryggi í umferðinni en ekkert bólar á því.

Það er gleðiefni að ferðamönnum fjölgar í bænum og við þurfum sem betur fer ekki að búa við örtröðina sem þeir hafa á suðurlandinu, en maður sér líka ýmislegt sem betur mætti fara hjá okkur. Það verður að fjölga bílastæðum við Norðurlandsveginn, þar sem eru veitingahús, bifreiðaverkstæði, blóma- og gjafavöruverslun og svo einn fjölsóttasti N1 skáli landsins. Þarna er ekki auðvelt að leggja bíl þegar umferðin er sem mest. Ég hef átt erindi á þetta svæði í sumar og þarna er ófremdarástand og í raun ótrúlegt að ekki hafi orðið þarna slys.

Margir tala um þetta sumar, sem nú er komið á seinni helminginn, sem sumarið sem aldrei kom. Þrátt fyrir leiðinda veður og litla sól höfuð við notið þess og að venju héldum við okkar Húnavöku og ég veit ekki betur en að hún hafi tekist vel, verið vel sótt og allir verið sáttir. Hér var haldin fjölmenn Prjónagleði í þriðja sinn og sótti hana bæði erlent og innlent áhuga- og fagfólk um prjónaskap og vonandi að framhald verði á. Hátíð eins og þessi vekur athygli á bænum og því frábæra starfi sem hér fer fram bæði í Textílsetrinu og ekki síður á Heimilisiðnaðarsafninu. Það er ekki annað að heyra en almenn bjartsýni sé ríkjandi hjá bæjarbúum almennt. Hér er að rísa hús undir gagnaver, byggingar að hefjast á  bæði iðnaðar- og íbúðarhúsum, fólki fjölgar í bænum og við höfum fengið  nýjan sveitarstjóra sem ég veit að bæjarbúar vænta mikils frá og bjóða hann velkominn til starfa.

Njótum þess sem eftir lifir sumars. Kveðja þar til næst. Nöldri

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga