Jójó 1988. Ljósm: Ljósmyndasafn Skagastrandar.
Jójó 1988. Ljósm: Ljósmyndasafn Skagastrandar.
Fréttir | 17. ágúst 2018 - kl. 12:11
Jójó tónleikar á Skaganum

Flestir Húnvetningar muna eftir hljómsveitinni Jójó frá Skagaströnd sem gerði garðinn frægan fyrir 30 árum síðan. Sveitin kom saman í sumar og spilaði á Skagaströnd í tilefni Sjómannadagsins og í kvöld ætlar hún að spila á Ævintýrahátíðinni Steampunk Iceland sem haldin er á Akranesi um helgina. Í samtali við Húnahornið segir Viggó Magnússon, bassaleikari Jójó, að hjómsveitin ætli að spila tíu af sínum bestu lögum frá árunum 1988-89 og að tónleikarnir fari fram í Dularfullu búðinni á Akranesi klukkan 22:00.

Forveri Jójó var hljómsveitin Rocky sem stofnuð var á Skagaströnd árið 1987 til að taka þátt í Músíktilraunum Tónabæjar sama ár. Hljómsveitinni gekk ágætlega og komst í úrslit keppninnar. Í sveitinni voru Ingimar Oddsson söngvari, Jón Arnarson gítarleikari, Kristján Blöndal trommuleikari og Viggó Magnússon bassaleikari. Árið eftir ákváðu hljómsveitarmeðlimir að reyna aftur við Músíktilraunir og bættist þá gítarleikarinn Fannar Viggósson í hópinn. Við það tækifæri breytti sveitin um nafn og kallaði sig Jójó.

Þetta var fyrir rúmlega 30 árum síðan. Jójó kom, sá og sigraði Músíktilraunir 1988 og var kölluð „gleðipopphjómsveiti“, í anda Greifanna og Suðkompanísins sem unnið höfðu keppnina árin tvö á undan. Lög eins og Stæltir strákar á ströndinni, Létt og laggott og Allt er gott sem endar vel, hljómuðu vel í eyru landans og urðu vinsælir sumarsmellir. Sveitin var virk á sveitaballamarkaðnum sumrin 1988 og 1989 en hvarf svo að mestu af sjónarsviðinu eftir það.

Jójó sendi aldrei frá sér plötu þó það hafi staðið til á sínum tíma en nokkur lög sveitarinnar má finna á safnplötum eins og á Bongóblíðu, Flostlögum og Bandalögum. Jójó félagarnir komu saman árið 2008 og léku opinberlega í tilefni af tuttugu ára sögu sveitarinnar. Þá lék Andri Þorleifsson með þeim á trommur og verður hann einnig á trommum á Akranesi í kvöld. Sveitin kom einnig saman á Skaggagleði í Húnabúð í Reykjavík árið 2009.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga