Ljósm: ssnv.is
Ljósm: ssnv.is
Fréttir | 17. ágúst 2018 - kl. 14:12
Kjörnir aðalfulltrúar fá bókargjöf frá SSNV

Kjörnir aðalfulltrúar í sveitarstjórnum á Norðurlandi vestra, alls 45, hafa fengið afhenta bókina Sveitarstjórnarréttur eftir Trausta Fannar Valsson. Bókin er gjöf frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Bókargjöfin var samþykkt á fundi stjórnar SSNV 10. júlí síðastliðinn í kjölfar upplýsinga sem framkvæmdastjóri samtakanna lagði fram yfir nýkjörna aðalmenn í sveitarstjórnir á starfssvæðinu eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar.

Í þeim kemur fram að nýliðar í sveitarstjórnum á Norðurlandi vestra eru nú 67% samanborið við 51% á síðasta kjörtímabili. Með nýliðum er átt við fulltrúa sem ekki sátu kjörtímabilið á undan en í þeim hópi eru einhverjir sem eru að koma inn í sveitarstjórnir að nýju eftir hlé í eitt kjörtímabil eða meira. Nýliðun í sveitarstjórnum á Norðurlandi vestra er nokkuð hærri en á landsvísu en meðaltal nýliðunar á landinu öllu er 58,4%. Konur eru 47% sveitarstjórnarfulltrúa á Norðurlandi vestra samanborgið við 38% á síðasta kjörtímabili og er hlutfallið á landsvísu það sama, 47%.

Starfsmenn SSNV óska nýkjörnum sveitarstjórnarmönnum velfarnaðar í starfi og hlakka til samstarfsins á kjörtímabilinu.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga