Fréttir | 13. september 2018 - kl. 09:55
Minnkandi laxveiði í húnvetnskum ám

Senn líður að lokum laxveiðitímabilsins á þessu ári og má segja að veiðin í húnvetnsku laxveiðiánum hafi verið dræm ef miðað er við síðustu ár. Á sama tíma í fyrra höfðu veiðst samtals 7.712 laxar í þeim sjö húnvetnsku laxveiðiám sem eru á lista Landssambands veiðifélaga yfir aflahæstu ár landsins, en það sem af er sumri er fjöldi veiddra laxa 5.441. Fækkunin nemur um 29% milli ára. Flestir laxar hafa veiðst í Miðfjarðará eða 2.509. Á svipuðum tíma í fyrra höfðu veiðst 3.470 laxar í ánni og nemur fækkunin 28%. Miðfjarðará er sem stendur þriðja aflahæsta laxveiði landsins.

Veiðst hafa 866 laxar í Blöndu og er það 40% fækkun miðað við í fyrra þegar veiðst höfðum um 1.433 laxar. Laxá á Ásum er komin í 670 laxa en í fyrra höfðu veiðst 1.057 og nemur fækkunin 37% milli ára. Víðidalsá er komi í 535 laxa m.v. 690 í fyrra sem er 22% fækkun. Vatnsdalsá er komin í 441 laxa m.v. 620 í fyrra sem er 29% fækkun. Hrútafjarðará er komin í 303 laxa m.v. 325 í fyrra og Svartá er komin í 117 laxa sem er sama veiði og í fyrra.

Alls veiddust 8.313 laxar síðasta sumar í þessum sjö laxveiðiám. Árið 2016 veiddust 10.252 laxar og árið 2015 var fjöldi veiddra laxa 17.054.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga