Fréttir | 13. september 2018 - kl. 16:18
Banna síma og snjallúr í skólanum

Grunnskóli Húnaþings vestra vill banna notkun farsíma og snjallúra á skólatíma og í frístund. Ástæðurnar eru tvíþættar; ný persónuverndarlög og vísbendingar um að símar geri nemendum ógagn í námi og félagslegum samskiptum. Stefna þessi var kynnt á skólasetningu á dögunum og fjallar skólastjóri nánar um málið í pistli á vef skólans í dag. Stefnan er að símar og snjallúr verði heima, í töskum eða úlpum á skólatíma og í frístund, frá því að nemendur koma í skólann og þar til þeir fara heim.

Ákvörðun um bannið verður tekin til umræðu á næstu vikum í nemendaráði, skólaráði og fræðsluráði og geta foreldrar, nemendur og starfsfólk komið með athugasemdir til skólastjórnenda, skólaráðs eða fræðsluráðs.

Í pistlinum segir að persónuverndarlög geri mjög strangar kröfur til skóla að myndbirtingar eða myndskeið verði ekki tekin án vitundar og samþykkis. Vandséð sé hvernig starfsfólk skólans geti framfylgt þessum lögum ef nemendur og starfsfólk séu með síma í frímínútum eða tímum. Hvað varðar vísbendingar um ógagn í námi og félagslegum samskiptum er bent á lokaverkefni Hrafnhildar Rósar Valdimarsdóttur sem stutt sé margvíslegum rannsóknum.

Lesa má pistil skólastjóra Húnaþings vestra um málið hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga