Fréttir | 13. september 2018 - kl. 21:25
Umtalsverð fjölgun íbúa á Blönduósi

Eins og fram kom í viðtali við Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóra Blönduósbæjar, hefur íbúum í Blönduósbæ fjölgað þó nokkuð á undanförnum mánuðum. Samkvæmt tölum frá Þjóðskrá www.skra.is hefur íbúum fjölgað um 43 eða 4,8% á tímabilinum frá 1. desember 2017 til 1. júlí 2018. Samkvæmt sama vef hefur íbúum í Austur Húnavatnssýslu alls staðar fækkað nema á Blönduósi. Íbúum á Skagaströnd fækkaði um 24 eða 5,0%, um þrjá í Skagabyggð eða 3,3% og um sjö í Húnavatnshreppi eða 1,8%. Á öllu Norðurlandi vestra fjölgar íbúum um 36 talsins eða 0,5%.

Fram kemur á vef Þjóðskrár að framvegis muni vefurinn birta upplýsingar um íbúatölur mánaðarlega eftir sveitarfélögum og verða þær upplýsingar byggðar á skráðri búsetu einstaklinga í þjóðskrá 1. hvers mánaðar.

 

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga