Fréttir | 14. september 2018 - kl. 10:25
Haustslátrun hafin á Blönduósi

Sauðfjárslátrun hófst í sláturhúsi SAH-Afurða á Blönduósi 5. september síðastliðinn. Að sögn Gísla Garðarssonar sláturhússtjóra er áætlað að slátra um 90-100 þúsund fjár sem er heldur minna en í fyrra. Gísla sýnist að fé sé að koma ágætlega af fjalli en misjafnt þó, meðalvigt lamba sé rúmlega 16,5 kíló. Um 120-130 manns starfa í sláturtíðinni á Blönduósi, þar af koma um 100 starfsmenn erlendis frá, flestir frá Póllandi, Bretlandi, Ungverjalandi og Tékklandi. Gísli segir að flestir hafi unnið í sláturtíð á Blönduósi áður og að einungis séu um 10 nýliðar í hópnum að þessu sinni. Áætlað er að sláturtíð ljúki 31. október næstkomandi.

Sláturhúsið á Blönduósi var byggt árið 1908 og hefur verið samfelld starfsemi síðan á þessu sviði, fyrst á vegum Sölufélags Austur-Húnvetninga og síðustu 12 ár á vegum SAH-Afurða. Slátrað er sauðfé úr Húnavatnssýslum og af svæði sem nær frá Kelduhverfi í austri til Dýrafjarðar í vestri, ásamt fé úr Borgarfirði, Dölum og Þingvallasveit.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga