Nöldrið | 17. september 2018 - kl. 21:23
Njótum hausthúmsins

Þrátt fyrir leiðinda tíðarfar þetta sumarið, hefur það liðið ótrúlega fljótt og ég hef tilfinningu fyrir því að þeir sem starfa hér við að þjónusta ferðamenn séu nokkuð ánægðir með útkomu sumarsins. Við Blönduósingar héldum okkar hefðbundnu sumarhátíðir sem vera ber og nú síðast gladdist hestafólk yfir veðurblíðu í hrossarekstri af Laxárdal. Einn er sá dagur á sumrinu sem Blönduósingar voru vanir að minnast, en virðist vera að falla í gleymskunnar dá, en það er 4. júlí. Í ár voru 30 ár síðan haldið var upp á það með pompi og prakt að Blönduós varð bær 4. júlí 1988. Mér hefði ekki þótt mikið þó þeir sem hér ráða ríkjum hefðu boðið okkur bæjarbúum í kaffi og t.d. pönnukökur eða vöfflur, það hefði varla sett bæjarsjóð á hausinn. Það var ekki einu sinni dreginn fáni að hún við skrifstofur bæjarins eins og ég man eftir að gert var í gamla daga. Og ekki var tímamótanna einu sinni minnst á vef bæjarins. Það var aðeins hér á síðum Húnahornsins sem sagt var frá afmælinu. Einnig er gaman að geta þess að í ár eru 142 ár síðan Th.Thomsen hóf  verslunarrekstur hér á  Blönduósi.

Nágrannar okkar í Húnaþingi vestra tóku heldur betur á því og blésu til sögu- og menningarveislu heila helgi í ágúst þegar þeir héldu upp á 20 ára afmæli sitt. Það var menningarfélag Húnaþings vestra sem sá um atburðinn.

Í fyrrasumar var um það talað að byrjað væri að reyna að uppræta kerfilinn sem hægt og bítandi leggur undir sig bæjarlandið. Ekki hef ég séð þess nein merki á þessu sumri að stuggað sé við þessum vágesti enda víst lítið hægt að gera þegar hann hefur fengið að breiða úr sér óáreittur ár eftir ár. Ég las viðtal við mann sem fylgist með gróðurfari á landinu og hann sagði að ekki væri hægt að eitra fyrir ófögnuðinum, helst væri að slá hann snemma sumars áður en hann myndar fræ eða það sem líklega væri skást, að beit sauðfé á hann. Það yrðu líklega ekki margir kátir að fá rollurnar aftur í bæinn.

Þó kerfillinn sé ekki ljót planta þegar hann skartar sínum hvítu blómum, er hann lítið augnayndi þegar blómin eru fallin og Hnjúkbyggðin liti skömminni skár út ef slegið væri meðfram götunni niður í gamla bæinn. Það er ekki hægt að segja að sú leið sé snyrtileg.

Í höfuðborginni okkar vantar nöfn á nýjar götu sem mér skilst að verði við Landsspítalann þegar það bákn allt verður risið. Stungið var upp á götuheitum sem vísuðu í lækningajurtir, en þær hugmyndir voru blásnar út af borðinu.  Maður nokkur lagði orð í belg á Facebook síðu sinni þar sem hann stakk upp á  frábærum hugmyndir að götuheitum við sjúkrahúsið t.d. Stoðkerfisstræti, Botnlangi, Misstígur, Ökklabraut, Meltingarvegur og Rassgata.

Þetta sumar sem senn kemst á síðasta fjórðunginn hefur um margt verið ánægjulegt fyrir okkur Blönduósinga. Hér hefur loksins orðið hreyfing á hlutunum. Hafnar byggingar á íbúðar- og iðnaðarhúsum. Hús yfir gagnaver risið og starfsemi þar að hefjast á næstunni og byrjað verður fljótlega á bygging á húsi nr. 2 samkvæmt fréttum. Þá hefur íbúum fjölgað verulega frá áramótum.  Eins og að ofan getur hefur verið mikið um ferðamenn í sumar. Öll gistirými í bænum full flestar nætur og meira að segja er farið að gista í  gömlu kirkjunni og stóðhestaréttarhelgina var líf og fjör í gamla bænum og hann fullur af gestum.

Ég veit að það hefur glatt fleiri en mig að lesa frásagnir Magnúsar Ólafssonar sem birst hafa hér á Húnahorninu, þar sem hann segir frá ferðum sem hann hefur farið í sumar á söguslóðir morðanna á Illugastöðum. Magnús er búinn að fara nokkrar hestaferðir með áhugasamt fólk ásamt því að fara með hóp úr félagi eldri borgara í rútuferðum um þessar slóðir og segja frá þeim óhugnanlegu atburðum sem þarna urðu og leiddu til aftöku Agnesar og Friðriks við Þrístapa árið 1830. Magnúsi er létt um mál og gjörþekkir þessa sögu alla og segir skilmerkilega frá. Það er ánægjulegt að nú loks á að gera þessum atburðum frekari skil með uppbyggingu við Þrístapa sem hefjast á næsta vor. Þess má einnig geta að miklar líkur eru á að Magnús fari fleiri hestaferðir með söguþyrsta Íslendinga næsta sumar. 

Þó lítið finnist af berjum þetta árið og sumir kvarti yfir lélegri kartöfluuppskeru, má alltaf hugga sig við að Valdimar kótelettukarl lætur ekki deigan síga og blæs til fyrsta kótelettukvöldsins 26. september n.k. Nú er bara að panta miða og fara að mýkja raddböndin.

Njótum hausthúmsins

Kveðja, Nöldri.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga