Vatnsdalshólar. Skjáskot af ruv.is.
Vatnsdalshólar. Skjáskot af ruv.is.
Fréttir | 01. október 2018 - kl. 16:45
Verkfræðistofa telur Vatnsdalshólana

Í mannlífsþættinum Landanum á Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi var sagt frá því að verkfræðistofan Efla ætlar að telja Vatnsdalshólana með hjálp nýjustu tækni og vísinda. Fylgst var með starfsmönnum Eflu skjóta á loft flygildi með myndavél og gps tæki sem sveif yfir hólunum og rætt var við Hjört Örn Arnarsson landfræðing hjá Eflu sem sagði verkefnið spennandi. „Hvert mannsbarn sem hefur keyrt hérna framhjá hefur velt því fyrir sér hvað þessir hólar eru margir og þá kemur upp áskorun að reyna að nota nýjustu tækni til að telja hólana.“.

Í þættinum var rifjað upp að árið 1993 reyndi listakonan Finna Birna Steinsson að telja hólana sem tókst ekki. Þá var ætt við listakonuna Hólmfríði Dóru Sigurðardóttur sem ólst upp á bænum Vatnsdalshólum og býr þar í dag. Henni fannst sem barn æðislegt að búa á bæ þar sem eitthvað væri óteljandi.

Landinn ætlar að fylgjast vel með framvindunni hjá Eflu næstu vikurnar og segja frá því þegar niðurstöður liggja fyrir um fjöldann.

Atriðið úr Landanum má sjá hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga