Minningarsteinn á aftökustaðnum.
Minningarsteinn á aftökustaðnum.
Fréttir | 02. október 2018 - kl. 09:28
Gengið um Þrístapa og Vatnsdalshóla

Fimmta og síðasta lýðheilsugangan fer fram í dag og verður gengið um Þrístapa og Vatnsdalshóla. Ákveðið var að bæta þessari göngu við lýðheilsugöngurnar í september en þó með örlítið breyttu sniði þar sem hún fer fram á þriðjudegi. Gangan hefst klukkan 18:15 við Þrístapa og verður gengið suður í Vatnsdalshólana undir leiðsögn Magnúsar Ólafssonar frá Sveinsstöðum.

Hann mætir hins vegar á Þrístapa klukkan 17:45 og segir stuttu útgáfuna af sögunni um morðin og aftökuna árið 1830 og frá uppgreftri beinanna 1934 eftir beiðni frá Agnesi. Öllum er heimilt að koma hvenær sem þeim hentar og ganga þá vegalengd sem þeir vilja. Í göngunni um hólana ætlar Magnús að segja frá náttúruumbrotum á svæðinu, hvernig hólarnir mynduðust og hvernig umbrot úr vesturhlíðum Vatnsdalsfjalla hefur haft mikil áhrif á náttúruna á svæðinu frá því land byggðist. Eftir það er hægt að ganga til baka að bílunum, eða ganga víðar um hólana og skoða þetta merkilega fyrirbrigði sem hólarnir eru.

Þátttakendur eru hvattir til þess að sameinast í bíla og nýta vel takmörkuð bílastæði við Þrístapa.

Lýðheilsuganga 5 – Þrístapar og Vatnsdalshólar

Staðsetning: Þrístapar

Tímasetningar:
KL: 17:45 Magnús tekur á móti gestum og segir stutta útgáfuna af sögunni um morðin, aftökuna og uppgröftinn.
KL: 18:15 haldið af stað suður í Vatnsdalshólana

Göngustjóri: Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga