Einn vænn úr Vatnsdalsá.
Einn vænn úr Vatnsdalsá.
Fréttir | 04. október 2018 - kl. 10:24
Laxveiðin hefur oft verið meiri

Laxveiðitímabilinu er nú lokið í helstu laxveiðiám í Húnavatnssýslum. Samkvæmt tölum sem birtar eru á vef Landssambands veiðifélag yfir 75 aflahæstu laxveiðiár landsins veiddust 5.919 laxar í sumar í þeim sjö húnvetnsku ám sem eru á listanum. Er það 2.395 löxum færra miðað við síðasta sumar eða 29% minnkun afla. Flestir laxar komu á land úr Miðfjarðará, 2.719 og endaði áin í þriðja sæti yfir aflahæstu ár landsins en veitt er á 10 stangir í ánni.

Blanda komst ekki inn á topp tíu eins og hún hefur verið undanfarin ár en hún skilaði 870 löxum að þessu sinni sem er 40% minna en í fyrra þegar 1.433 laxar veiddust í ánni. Veitt er á 10 stangir í Blöndu.

Laxá á Ásum náði ekki þúsund laxa markinu í sumar eins og í fyrra en lokatölur urðu 702 laxar á fjórar stangir samanborið við 1.108 laxa í fyrra. Víðidalsá endaði í 588 löxum á átta stangir en í fyrra veiddust 781 laxar. Vatnsdalá endaði í 551 löxum á sex stangir en miðað við 714 laxa í fyrra. Hrútafjarðará og Síká endaði í 360 löxum á þrjár stangir miðað við 384 laxa í fyrra og Svartá endaði í 129 löxum á fjórar stangir en í fyrra veiddust 128 laxar.

Heilt yfir má segja að laxveiðitímabilið í húnvetnsku laxveiðiánum hafi verið slakt í sumar miðað við undanfarin ár.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga