Vatnsdalshólar. Ljóms: Magnús Ólafsson.
Vatnsdalshólar. Ljóms: Magnús Ólafsson.
Fréttir | 04. október 2018 - kl. 13:57
Gengið um Þrístapa og Vatnsdalshóla

Síðdegis á þriðjudaginn mættu rúmlega 20 göngugarpar í fimmtu og síðustu lýðheilsugönguna á þessu hausti. Gengið var í hráslagalegu veðri um Þrístapa og Vatnsdalshóla undir styrkri leiðsögn Magnúsar Ólafssonar frá Sveinsstöðum. Gangan sjálf hófst klukkan 18:15 við Þrístapa en Magnús mætti hálftíma fyrr og sagði stuttlega frá sögunni um morðin og aftökuna árið 1830 og frá uppgreftri beinanna árið 1934.

Frá Þrístöpum var gengið suðuraustur í Vatnsdalshólana allt þar til sýn opnaðist yfir Flóðið. Á göngunni sagði Magnús frá náttúruumbrotum á svæðinu, hvernig hólarnir mynduðust og hvernig umbrot úr vesturhlíðum Vatnsdalsfjalls hefur haft mikil áhrif á náttúruna á svæðinu, m.a. Skíðastaðaskriðan.

Ánægja með göngurnar
Farnar voru fjórar lýðheilsugöngur í Austur-Húnavatnssýslu í september og svo var ákveðið að bæta einni við sem farin var þriðjudaginn 2. október eins og áður sagði.

Fyrsta miðvikudag mánaðarins var gengið um holtin í kringum Blönduósi og var Berglind Björnsdóttir göngustjóri. Miðvikudaginn þar á eftir var gengið um Gunnfríðarstaðaskóg og sá Páll Ingþór Kristinsson um stjórn göngunnar. Þriðja gangan var um Spákonufellshöfða á Skagaströnd og þar var Ólafur Bernódusson göngustjóri. Fjórða og síðasta gangan í september var um gljúfrið við Giljá og stýrði Sigurveg Sigurðardóttir göngunni. Þátttakan í göngunum var ágæt og veðrið misjafnt eins og gengur á þessum árstíma.

Lýðheilsugöngur Ferðafélags Íslands voru haldnar um allt land í september en um var að ræða fjölskylduvænar 60-90 mínútna langar göngur. Megin tilgangurinn er að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap. Almenn ánægja var þetta framtak í Austur-Húnavatnssýslu en ferðamálafulltrúi sýslunnar hafði umsjón með skipulagningu.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga