Bætt aðgengi að Hrútey. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Bætt aðgengi að Hrútey. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson.
Fréttir | 04. október 2018 - kl. 15:51
Stórbætt aðgengi að Hrútey

Aðgengi að náttúruperlunni Hrútey hefur verið bætt til muna. Búið er að malbika bílastæði við Norðurlandsveg og breikka og malbika göngustíg niður að göngubrúnni út í eyjuna. Blönduósbær fékk á þessu ári úthlutað 32 milljónum króna í styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að bæta aðgengi að Hrútey og til að nýta og varðveita elsta samgöngumannvirki á Íslandi, gömlu Blöndubrúna frá árinu 1897, sem göngubrú út í eyjuna.

Gert er ráð fyrir rútustæðum á bílstæðunum við Norðurlandsveginn en önnur ökutæki munu geta keyrt niður á næsta pall fyrir neðan þar sem salernisaðstaða verður. Líklegt er að ráðist verður í næsta áfanga næsta sumar sem er þá að setja upp salernisaðstöðu og nýta gömlu Blöndubrúna sem göngubrú.

Hrútey, sem hefur verið fólksvangur frá árinu 1975, er í eigu Blönduósbæjar. Samstarf er við Skógræktarfélag Austur-Húnavatnssýslu um opin skóg í eyjunni. Bætt aðgengi að Hrútey með endurnýtingu sögulegra mannvirkja gerir hana að enn áhugaverðari ferðamannastað, eykur öryggi ferðamanna og stuðlar að náttúruvernd.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga