Fréttir | 05. október 2018 - kl. 09:14
Fyrirkomulag rjúpnaveiða í Húnaþingi vestra

Fyrirkomulag rjúpnaveiða í vetur var rætt á fundi landbúnaðarráðs Húnaþings vestra á miðvikudaginn. Ákveðið var að fyrirkomulagið verði eins og í fyrra með þeirri undantekningu að fjölga á um eina byssu á svæði 2, sem er eignarhlutur Húnaþings vestra í Arnarvatnsheiði og Tvídægru, þannig að leyfðar verða fimm byssur á svæðinu.

Veiðimenn með gilt veiðikort, útgefið af veiðistjórnunarsviði Umhverfisstofnunar, geta keypt sérstakt veiðileyfi útgefið af Húnaþingi vestra sem veitir þeim einum heimild til rjúpnaveiða í eignarlöndum sveitarfélagsins.

Svæðin eru: 1) Eignarhlutur Húnaþings vestra í Víðidalstunguheiði ásamt jörðunum Króki, Stóru-Hlíð, Stóra-Hvarfi  og eignarhlut Húnaþings vestra í Öxnatungu. 2) Eignarhlutur Húnaþings vestra í Arnarvatnsheiði og Tvídægru.

Veiðileyfin verða til sölu hjá Ferðaþjónustunni Dæli. Verð fyrir hvert leyfi er kr. 9.000 á dag. Fjöldi veiðimanna á veiðisvæði 1 er takmarkaður við fjórar byssur á dag en fimm byssur á svæði.

Sjá má nánar um fyrirkomulag rjúpnaveiða í eignarlöndum Húnaþings vestra hér.

Rjúpnaveiðitímabilið 2018

Fjöldi veiðidaga eru 12 sem skiptast á fjórar helgar, þ.e. síðustu helgina í október og fyrstu þrjár í nóvember:

  • föstudaginn 26. október, laugardaginn 27. október og sunnudaginn 28. Október,

  • föstudaginn 2. nóvember, laugardaginn 3. nóvember og sunnudaginn 4. nóvember,

  • föstudaginn 9. nóvember, laugardaginn 10. nóvember og sunnudaginn 11. nóvember,

  • föstudaginn 16. nóvember, laugardaginn 17. nóvember og sunnudaginn 18. nóvember.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga