Fréttir | 13. október 2018 - kl. 23:22
Afleitt ástand Vatnsnesvegar

Enn og aftur kemst Vatnsnesvegur í fréttirnar en lengi hefur verið kvartað undan afleitu ástandi vegarins vegna viðhaldsskorts árum saman. Íbúar á Vatnsnesi héldu fjölmennan íbúafund í vikunni vegna ástandsins en þeir eru orðnir langþreyttir á orðagjálfri ráðamanna sem virðist halda ákaflega fast við budduna og hlusta ekki á fólkið á svæðinu, eins og segir í bókun fundarins.

Vegurinn sem um ræðir er þjóðvegur nr. 711 um Vatnsnes og Vesturhóp í Húnaþingi vestra. Íbúafundurinn var haldinn 10. október síðastliðinn á Hótel Hvítserk Vesturhópi. Hámarkshraði vegarins hefur á kafla verið færður niður í 30 kílómetra hraða á klukkustund vegna lélegs ástands. „Hlýtur að vera einsdæmi á Íslandi og sýnir í raun hve alvarlegt ástandi er orðið,“ segir í bókun fundarins.

Þar segir einnig að mörg slys hafi orðið á veginum undanfarin ár. Banaslys hafi orðið þar árið 200,4 þegar ferðamaður missti stjórn á bíl sínum í lausamöl. Farartæki heimamanna hafi fengið að kenna á ástandi vegarins og viðhaldskostnaður hafi fari upp úr öllu valdi. Sama megi segja um bíla þeirra sem sjá um skólaakstur. Þá er bent á að margir íbúar við þjóðveg 711 sæki vinnu annað til að drýgja tekjur enda sauðfjárræktarsvæði og fáir lifi af því eingöngu.

„Foreldrar eru orðnir mjög uggandi um börn sín í skólaakstri á þessum vegi og eru mörg dæmi um að börn kasti upp á leiðinni. Eins eru börnin kvíðin fyrir ferðunum og eru lengi að jafna sig í skóla og heima í lok ferðar og eins hefur ferðatíminn lengst til muna. Þetta er að sjálfsögðu algerlega óviðunandi og má segja að þetta jaðri við barnaverndarmál,“ segir í bókuninni.

Foreldar skólabarna á fundinum voru á því að skammt væri í að börn yrðu ekki send í skóla ef ástand vegarins verður ekki bætt verulega. Var bent á að slík aðgerð yrði algerlega á ábyrgð stjórnvalda sem með sinnuleysi sínu myndu þá hafa lögbundna skólagöngu af börnum á svæðinu. Slíkt væri sennilega fáheyrt, ekki síst í ríku samfélagi á 21. öld.

Íbúarnir skora á stjórnvöld að bæta ástand vegarins þannig að ekki hljótist af frekara tjón á farartækjum og fólki. „Ljóst er að ábyrgð stjórnvalda er mikil í öllu þessu máli og ekki hægt að víkja sér undan aðgerðum.“

Einnig var skorað á sveitarstjórn Húnaþings vestra að koma til liðs við íbúa með öllum ráðum og reyna að þrýsta á stjórnvöld að gera betur. „Ábyrgð sveitarstjórnar er líka mikil í þessu máli.“

Eins hvatti fundurinn alla hagsmunaaðila í Húnaþingi vestra til að taka höndum saman með íbúum á Vatnsnesi og Vesturhópi og beita þrýstingi þar sem við á. „Þetta sama á við um pólitíska flokka, ekki síst þá sem tilheyra stjórnarmeirihlutanum á Alþingi.“

Að lokum áréttaði fundurinn ábyrgð stjórnvalda á ástandinu og skorar á þau að láta hendur standa fram úr ermum. „Við vitum öll að það eru til peningar til að bæta úr og minnum á að líf og heilsa fólks verður ekki metin til fjár,“ segir í bókun fundarins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga