Við undirritun samnings. Unnur Valborg og Stefán. Ljósm: ssnv.is.
Við undirritun samnings. Unnur Valborg og Stefán. Ljósm: ssnv.is.
Fréttir | 17. október 2018 - kl. 12:33
Greina kolefnisspor Norðurlands vestra

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hafa fyrst landshlutasamtaka skrifað undir samning um vinnu við stöðugreiningu á kolefnisspori Norðurlands vestra í heild. Greina á helstu orsakavalda kolefnislosunar eins og í samgöngum, landbúnaði, sjávarútvegi, iðnaði og neyslu íbúa. Að þeim niðurstöðum fengnum verða greindir möguleikar á minnkun á losun kolefnis og hvaða mótvægisaðgerðir komi helst til greina í landshlutanum. Umhverfisvöktun ehf. mun vinna verkefnið fyrir SSNV.

Sagt er frá þessu á vef SSNV. Þar kemur fram að það er von SSNV að með verkefninu verði stigið mikilvægt fyrsta skref í átt að markvissri kolefnisjöfnun svæðisins sem með tímanum skapi tækifæri er koma til með að styrkja byggð í landshlutanum. Verkefnið er áhersluverkefni Sóknaráætlunar landshluta fyrir árin 2018 og 2019.

Á meðfylgjandi mynd er Stefán Gíslason, eigandi og stofnandi Umhverfisráðgjafar Íslands ehf. og Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV að undirrita samning um verkefnið á Byggðaráðstefnu Byggðastofnunar í Stykkishólmi í gær.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga