Fréttir | 18. október 2018 - kl. 13:14
Í takt við tímann - Magnificat

Skagfirski kammerkórinn ræðst í stórverkefni í tilefni afmælis fullveldis á Íslandi og flytur verkið Magnificat eftir breska tónskáldið John Rutter í Miðgarði á laugardaginn klukkan 16. Kórinn hefur fengið til samstarfs við sig hljómsveitarstjórann Guðmund Óla Gunnarsson, Sinfóníettu Vesturlands, Kammerkór Norðurlands og Kalman listfélag á Akranesi. Einsöngvari í verkinu er Helga Rós Indriðadóttir sópran sem jafnframt er söngstjóri Skagfirska kammerkórsins.

Magnificat er marglaga verk sem frumflutt var 1990. Það er gleðióður til Maríu Guðsmóður og sækir Rutter innblástur í hátíðahöld suðrænna landa. Segir hann sjálfur Magnificat vera fullt af fögnuði, þar sem sólin skín frá upphafi til enda.

Helmingur tónleikanna er helgaður íslenskum einsöngslögum í hljómsveitarútsetningum og eru það þau Helga Rós og Kolbeinn J.Ketilsson tenór sem flytja ásamt Sinfóníettunni. Flutt verða lög sem lifað hafa með þjóðinni lengi.

Tónleikarnir eru hluti af fullveldisdagsskrá Íslands og sýna m.a. þróunina í verkefnavali almennra kóra á þeim hundrað árum sem liðin eru frá fullveldi.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga