Víða eru vegir illa farnir.
Víða eru vegir illa farnir.
Fréttir | 01. nóvember 2018 - kl. 15:35
Húnavatnshreppur skorar á samgönguyfirvöld að endurskoða samgönguáætlun

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps skorar á samgönguyfirvöld að endurskoða samgönguáætlun 2019-2023 sem samgönguráðherra hefur lagt fram með þingsályktunartillögu á Alþingi. Í umsögn sveitarstjórnar til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis segir að greiðar samgöngur sem byggja á góðu vegakerfi séu nauðsynlegar forsendur fyrir uppbyggingu atvinnulífs og viðunandi afkomu heimila og fyrirtækja. „Flestir tengi- og héraðsvegir í Húnavatnssýslu uppfylla engan veginn þær kröfur og fer ástand þeirra versnandi ár frá ári vegna ónógs viðhalds. Óhætt er að fullyrða að oft á tíðum eru vegirnir hættulegir vegfarendum og ættu að merkjast sem slíkir,“ segir m.a. í umsögninni.

Í henni kemur fram að sveitarstjórn Húnavatnshrepps hafi orðið fyrir vonbrigðum að í áætluninni skuli hvergi vera minnst á vegabætur í sveitarfélaginu. Einu vegabæturnar fyrir Norðurlandi vestra sé smá vegakafli á Skagastrandarvegi sem áætlaður sé eftir 3-4 ár.

Þá segir í umsögninni að sveitarfélagið keyri skólabörn um 252 kílómetra dag hvern á alónýtum malarvegum og í ljósi þess sé afar mikilvægt að áhersla verði á að lagfæra skólaakstursleiðir innan Húnavatnshrepps fyrst og fremst. Jafnframt leggur sveitarfélagið mikla áherslu á að lagt verði bundið slitlag á Þingeyrarveg en um hann sé mikil umferð á sumrin enda fjölsóttur sögu- og ferðamannastaður á Þingeyrum. Ennfremur leggi sveitarstjórn þunga áherslu á að Svínvetningabraut, Reykjabraut og Auðkúluvegur verði lagðir bundnu slitlagi. Um fjölfarna vegi sé að ræða þar sem þeir séu varaleið vegakerfisins vegna tengingar við Norðurland.

Sjá má umsögn Húnavatnshrepps hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga