Skjólið er á 2. hæð í Félagsheimilinu.
Skjólið er á 2. hæð í Félagsheimilinu.
Fréttir | 06. nóvember 2018 - kl. 14:30
Úrbóta er þörf á Skjólinu

Húsnæði Skjólsins, félagsmiðstöðvarinnar á Blönduósi, er ábótavant að mati menningar-, tómstunda- og íþróttanefndar Blönduósbæjar og skólastjórnenda Blönduskóla. Mikill áhugi er á að félagsmiðstöðin fari á nýjan stað sem hafi í sér fleiri notkunarmöguleika fyrir samfélagið í heild, samanber frístundahús. Þá sé nauðsynlegt að aðgengi fyrir hreyfihamlaða einstaklinga sé í lagi.

Málefni Skjólsins voru til umræðu á fundi menningar-, tómstunda- og íþróttanefndar Blönduósbæjar í gær og mættu skólastjórnendur Blönduskóla á fundinn. Að mati nefndarinnar er núverandi húsnæði verulega óhentugt og þarfnast mikilla lagfæringa til að vera í góðu standi. Þá sé félagsmiðstöðin staðsett í sama húsi og Félagsheimili bæjarins sem hafi skemmtanaleyfi og starfsemin fari ekki saman.

Nefndin vill að aðstaða barna og unglinga verði bætt til muna í félagsmiðstöðinni með tilliti til forvarnargildis og í góðu samstarfi við hagsmunaaðila. Þá vill nefndin að unnið verði að því að efla tómstundastarf allra íbúa Blönduósbæjar með þessum breytingum. Skólastjórnendur Blönduskóla voru sammála mati nefndarinnar og nauðsyn þess að ráðast í úrbætur.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga