Fréttir | 06. nóvember 2018 - kl. 19:54
Umferðarhraði lækkaður í þéttbýli Blönduósbæjar?

Á fundi skipulags-, umhverfis- og umferðarnefndar Blönduósbæjar þann 24. október var m.a. á dagskrá liðurinn „Samþykkt um umferðarmál“ en þar leggur nefndin til að umferðarhraði í þéttbýli Blönduósbæjar skuli annars vegar vera 35 km og hins vegar 50 km. Samkvæmt teikningu sem unnin var á fundinum.

Samkvæmt upplýsingum Húnahornsins mun hraðinn vera áfram 50 km hámarkshraði á Hnjúkabyggð að Ólafsbyggð, Þingbraut að Aðalgötu, Efstubraut, Hafnarbraut og Húnabraut að gatnamótum Árbrautar og Vallarbrautar. Annars staðar á Blönduósi þéttbýli verður 35 km hámarkshraði.

Þá samþykkti nefndin að falla frá breytingum á gatnamótum Melabrautar og Hólabrautar m.a. til  að sporna við hækkun á umferðarhraða inná Hólabraut.

Skiptulagsfulltrúa var falið að ganga frá málinu og uppfæra gögn í samræmi við tillögur nefndarinnar. Þá var tæknideild falið að kostnaðarmeta breytingarnar fyrir gerð fjárhagsáætlunar 2019.

Það skal tekið fram að sveitarstjórn á ennþá eftir að fjalla um málið.

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga