Fréttir | 07. nóvember 2018 - kl. 10:17
Sviðamessa í Félagsheimilinu á Blönduósi

Lionsklúbbur Blönduóss heldur Sviðamessu í Félagsheimilinu á Blönduósi á föstudaginn. Sviðamessa er gömul hefð hjá klúbbnum sem varðaði upphaf vetrarstarfs hans. Í messuna buðu félagar Lionsklúbbsins gestum en það var skilyrt að þeir væru karlkyns. Nú verður breyting gerð á sem felst í því að bjóða öllum, óháð kyni, til veislunnar. Allur ágóði rennur til Styrktarsjóðs Húnvetninga.

Gunnar Rúnar Kristjánsson, formaður skemmtinefndar Lionsklúbbsins á Blönduósi, segir í samtali við Húnahornið að það sé aldrei að vita nema að Sviðamessa á hausti geti orðið árlegur viðburður. Það sé þó ekki heilagt að Lionsklúbburinn standi fyrir henni í framtíðinni en einhverstaðar verði að byrja. „Ljóst er að breyta þarf peningasöfnun fyrir Styrktarsjóðinn eigi hann ekki að líða undir lok. Sviðamessan er kjörin leið til að safna fé í hann. Stjórn Styrktarsjóðsins mun eftir sem áður standa að happadrætti."

Gunnar segir að allir félagar Lionsklúbbsins greiði fyrir aðgöngumiða á Sviðamessuna óháð því hvort þeir séu að vinna fyrir, eftir og meðan á messunni stendur. „Kór Íslands, Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps, mun koma fram og syngja nokkur lög auk þess að stjórna fjöldasöng. Þrátt fyrir þetta borga allir kórfélagar inn á hátíðina," segi Gunnar og bætir við að viðtökur hafi verið góðar en enn sé pláss fyrir fleiri. Hann segir að hægt sé að tilkynna þátttöku næstu daga þó að 6. nóvember hafi verið settur sem síðasti frestur. „Borðum verður raðað upp, dúkuð og lagt á þau á fimmtudagskvöld. Hvernig borðaröðunin verður ræðst mikið af þátttöku. Það er ekkert aldurstakmark á messuna og barinn verður opinn," segir Gunnar og vonast til að sjá sem flesta.

Sviðamessan hefst klukkan 20 í Félagsheimlinu á Blönduósi á föstudaginn, 9. nóvember. Miðaverð er kr. 4.500. Sérstakur gestur kvöldsins er Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Matseðill er þessi: Svið, lambalæri, fyrir þá sem borða ekki svið, kartöflumús, rófustappa, rauðkál og grænar baunir. Þátttöku má tilkynna til Finns Hrafnssonar s: 888-1233, Gunnars Kristjánssonar s: 892-6683 eða Lárusar Jónssonar s: 690-3130.

Um Styrktarsjóð Húnvetninga
Styrktarsjóður Húnvetninga var stofnaður 16. mars árið 1974. Markmið sjóðsins er að veita héraðsbúum aðstoð þegar óvæntir erfiðleikar ber að höndum, fyrst og fremst hjálp í erfiðum sjúkdómstilfellum þar sem ekki er veitt næg aðstoð af hálfu opinberra aðila. Jafnframt leggur Styrktarsjóður Húnvetninga fram fjárframlög til kaupa á lækningatækjum og öðrum þeim tækjum eða aðstöðu sem skapar bætta sjúkrahjálp og heilsugæslu í héraðinu.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga