Holur á Vatnsnesvegi.
Holur á Vatnsnesvegi.
Fréttir | 07. nóvember 2018 - kl. 13:23
Áfram fundað um ástand Vatnsnesvegar

Íbúar við þjóðveg 711 í Vesturhópi og á Vatnsnesi í Húnaþingi vestra héldu annan fund um vegamál 31. október síðastliðin. Markmið fundarins var að fara yfir hvað fyrri fundur hefði skilað, skiptast á skoðunum og undirbúa væntanlegan fund með samgönguráðherra, fulltrúum Vegagerðarinnar, sveitarstjórn Húnaþings vestra og fleiri aðilum. Á fundinn mætti m.a. fulltrúar frá sveitarstjórn Húnaþings vestra og framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Fundurinn var vel sóttur en á honum kom fram að þingmenn kjördæmisins hefðu ekki sýnt nein viðbrögð við ályktun fyrri fundarins og vakti það undrun fundarmanna. Þá hefðu fundarmenn viljað sjá meiri viðbrögð frá ferðaþjónustuaðilum og félagasamtökum í heimabyggð.

Fram kom á fundinum að þjóðvegur 711 sé enn afleitur víða, þrátt fyrir heflun og að á vestanverðu Vatnsnesi sé enn 30 kílómetra hámarkshraði á hluta vegarins og að þar hafi engar úrbætur átt sér stað.

Fram kom hjá bílaviðgerðarmanni sem var á fundinum að viðhaldskostnaður bíla á svæðinu hefur hækkað mjög mikið á síðustu árum og bremsubúnaður, höggdeyfar og aðrir slitfletir endast eingöngu í stuttan tíma miðað við eðlilegt ástand. Þetta kemur ekki síst niður á þeim sem aka til og frá vinnu, skólabílum, póstbíl og öðrum þjónustuaðilum.

Þá kom fram á fundinum að enn séu börn að kasta upp í skólaakstri vegna hristings og eins sé hávaði inni í bílum mun meiri þegar þeir skella ofan í holur vegarins. Ferðatími til og frá skóla hefur lengst mikið vegna ástands vegarins. Rætt var um að sennilega væri þess ekki langt að bíða að foreldar hætti að senda börn í skólann. Sú ráðstöfun yrði þá á ábyrgð stjórnvalda.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga