Fréttir | 08. nóvember 2018 - kl. 09:51
Snædrottningin í Húnaþingi vestra

Leikfélag Hvammstanga og Leikdeild Ungmennafélagsins Grettis hafa sameinast í Leikflokk Húnaþings vestra. Æfingar standa nú yfir hjá leikflokknum á Sædrottningunni, hinu vinsæla, skemmtilega og sígilda ævintýri HC Andersen, undir leikstjórn Gretu Clough. Leikritið verður frumsýnt í Félagsheimilinu á Hvammstanga 7. desember næstkomandi og verða sýningar einnig 8. og 9. desember. Hægt er að kaupa miða á vefsíðu leikflokksins eða með því að panta á netfanginu leikur@leikflokkurinn.is. Leikflokkurinn stefnir svo á að setja upp söngleik um páskana.

Leikritið fjallar um Kára og Gerðu sem eru bestu vinir og myndu gera hvað sem er fyrir hvort annað. Þegar Kári hverfur eina kalda vetrarnótt leggur Gerða af stað í ævintýraför um ókunn lönd alla leið að Klakahöll Snædrottningarinnar. Hún eignast marga vini á leiðinni, sem gera hvað þeir geta til að hjálpa henni, en hún ein getur bjargað Kára frá Snædrottningunni. Tekst henni að lyfta álögum Snædrottningarinnar áður en það er of seint?

Leikritið er eftir sögu HC Andersen og leikgerðin er eftir Gretu Clough, en hún hefur hlotið alþjóðleg verðlaun bæði sem leikskáld og leikstjóri. Persónur leikritsins eru skrautlegar og brúðurnar fallegar. Snædrottningin ætti að gleðja alla fjölskylduna í jólaundirbúningnum.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga