Frá kynningarfundi um smávirkjanakosti. Ljósm: ssnv.is.
Frá kynningarfundi um smávirkjanakosti. Ljósm: ssnv.is.
Fréttir | 08. nóvember 2018 - kl. 11:38
Mikill áhugi á styrkjum til frumathugana á smávirkjunum á Norðurlandi vestra

Mikill áhugi er á styrkjum til frumathugana á smávirkjunum á Norðurlandi vestra. Umsóknarfrestur um styrki rann út 5. nóvember síðastliðinn og bárust 17 umsóknir, að því er fram kemur á vef Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Þar segir að gert sé ráð fyrir að átta verkefni verði styrkt og sé matsnefnd nú að störfum. Niðurstöður hennar liggja fyrir í næsta mánuði.

SSNV lét verkfræðistofuna Mannvit gera frumúttekt á smávirkjunum á Norðurlandi vestra fyrr á þessu ári og nær hún til 82 staða, frá Hrútafirði og í Skagafjörð, þar sem til greina kemur að koma upp smáum vatnsaflsvirkjunum. Samkvæmt úttektinni var Vatnsdalsá á meðal hagkvæmustu virkjunarkosta í Húnavatnssýslum. Uppsett afl allra kostanna í úttektinni er tæplega 50 MW og orkuvinnslugeta 360 gígawattstundir.

Þeir möguleikar sem metnir voru í skýrslunni voru aðeins kannaðir samkvæmt loftmyndum, kortum og öðrum fyrirliggjandi upplýsingum, svo sem rennslismælingum Veðurstofunnar. Ekki var farið í ferðir á vettvang og ekkert samband haft við landeigendur. Þá var tengiskostnaður við dreifikerfið ekki tekinn inn í útreikninga á hagkvæmni enda eru aðstæður ákaflega misjafnar.

Nánari upplýsingar um Smávirkjanasjóð SSNV er að finna hér: http://www.ssnv.is/is/soknaraaetlun/smavirkjanasjodur-ssnv.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga