Húnavallaleið
Húnavallaleið
Fréttir | 14. nóvember 2018 - kl. 15:54
Vilja Húnavallaleið aftur á dagskrá

Hafin er undirskriftasöfnun til stuðnings því að tvær hugmyndir Vegagerðarinnar frá 2010, um styttingu hringvegarins á Norðurlandi vestra, verði teknar upp í samgönguáætlun. Annarsvegar er það svokölluð Húnavallaleið í Austur-Húnavatnssýslu og hinsvegar Vindheimaleið í Skagafirði. Sagt er frá þessu á vef Ríkisútvarpsins.

Með Húnavallaleið yrði þjóðvegur eitt færður sunnar, í stað þess að liggja í gegnum Blönduós. Sveigt yrði í vestur úr Langadal, ekið á milli Laxárvatns og Svínavatns, framhjá Húnavöllum og komið á hringveginn við bæinn Öxl í mynni Vatnsdals. Vegur um Húnavallaleið myndi stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um allt að 14 kílómetra.

Með Vindheimaleið yrði sveigt af þjóðvegi eitt í Blönduhlið, ekið sunnan við Varmahlíð og upp á Vatnsskarð við Arnstapa. Vegur um Vindheimaleið myndi stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um allt að 6 kílómetra.

Vegagerðin lagði fram tillögur að báðum þessum leiðum fyrir rúmum áratug. Þær voru mjög umdeildar, ekki síst vegna þess að í þeim er gert ráð fyrir að færa hringveginn framhjá og Blönduósi og Varmahlíð. Sveitarstjórnir í Húnavatnssýslum og Skagafirði mótmæltu tillögunum, en sveitarstjórar á svæði Eyþings studdu þær. Að lokum lagði Vegagerðin báðar tillögurnar til hliðar.

Samgöngufélagið hefur hefur nú sent Alþingi athugasemdir við þingsályktunartillögu að Samgönguáætlun 2019 til 2033 og óskað eftir því að í áætluninni verði gert ráð fyrir Húnavallaleið og Vindheimaleið. Félagið segir að fjármagna megi gerð veganna með veggjöldum og þannig taki framkvæmdirnar ekki til sín fé frá öðrum mikilvægum vegaframkvæmdum.

Sjá má undirskriftarlistann hér fyrir Húnavallaleið.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga