Fulltrúar landshlutasamtaka sveitarfélaga við afhendingu styrkja ásamt samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og fulltrúum í valnefnd. Ljósm: stjornarradid.is
Fulltrúar landshlutasamtaka sveitarfélaga við afhendingu styrkja ásamt samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og fulltrúum í valnefnd. Ljósm: stjornarradid.is
Fréttir | 15. nóvember 2018 - kl. 18:06
95 milljónum króna úthlutað vegna byggingar gagnavers á Blönduósi

Nú rétt í þessu var greint frá því að Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hafi undirritað samning við landshlutasamtök sveitarfélaga um níu verkefnastyrki sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024. Að þessu sinni var 120 milljónum úthlutað fyrir árið 2018 til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum.

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra fá styrk vegna byggingar gagnavers Etix Everywhere Borealis við Blönduós. Það sem gera þarf vegna þess er m.a. götur og lýsing, leggja vatns- og fráveitulagnir og fleira. Styrkur þessa árs er 20 milljónir króna en 25 milljónir á ári næstu þrjú árin. Talið er að með verkefninun skapist 20-30 störf í fyrsta áfanga.

„Það er okkur mikil ánægja að unnt sé að styrkja mörg áhugaverð og fjölbreytt verkefni um land allt á grundvelli nýrrar byggðaáætlunar. Ákveðið var að veita styrki að fengnum umsóknum en þetta er í fyrsta sinn sem framlög úr byggðaáætlun eru sett í samkeppnispott með þessum hætti“ sagði ráðherra við undirritun samninganna.

Áhersla er lögð á að styrkja svæði þar sem er langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Verkefni sem hljóta styrk skulu nýtast einstökum svæðum eða byggðarlögum innan landshlutans, eða landshlutanum í heild. Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknir og gerði tillögur til ráðherra. Byggðastofnun annast umsýslu verkefnastyrkjanna. 

Sjá nánar um verkefnin níu sem hljóta styrk á árinu 2018 hér. 

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga