Frá íbúafundinum. Ljósm: hunathing.is
Frá íbúafundinum. Ljósm: hunathing.is
Fréttir | 16. nóvember 2018 - kl. 13:40
Fjölmennur íbúafundur með ráðherra

Rúmlega 80 manns mættu á íbúafund um ástand vegar 711 um Vatnsnes sem haldinn var síðastliðið miðvikudagskvöld á Hótel Hvítserk. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra mætti á fundinn, hlustaði á framsögur fulltrúa sveitarstjórnar Húnaþings vestra og íbúa svæðisins og fór yfir samgönguáætlun. Nefndi hann lið í henni sem mögulegt væri að nota til framkvæmda á Vatnsnesvegi eða svokallaðan tengivegapott.

Sagt er frá fundinum á vef Húnaþings vestra. Þar kemur fram að framsögumenn hafi verið Ingveldur Ása Konráðsdóttir, formaður byggðarráðs Húnaþings vestra, Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir fulltrúi íbúa auk Sigurðar Inga Jóhannessonar ráðherra. Fundarstjóri var Júlíus Guðni Antonsson.

Þar segir einnig að á fundinum hafi nokkur von myndast um úrbætur en í blálokin, þegar slíta átti fundi, hafi fulltrúi Vegagerðarinnar staðið upp og sagt að ekkert yrði af því sem ráðherra talaði um þar sem Vegagerðin væri búin að úthluta tengivegapotti fyrir Norðurland næstu þrjú árin og að kannski yrði hægt að nota einhverja aura eftir það. Þá hafi hann einnig sagt að ekki væri hægt að fara í framkvæmdir nema ýtrustu öryggisstöðlum væri fullnægt með fullri sjö metra vegbreidd og það væri of kostnaðarsamt.

Á vef Húnaþings vestra er því spurt: „Er þá algjört öryggisleysi í 20 – 30 ár betra en að lagfæra veginn í samræmi við það sem þekkist í dreifbýli erlendis þ.e. 1 ½ vegbreidd og minni vegflái?  Samkvæmt þessu virðast valkostirnir vera annað hvort reiðgata eða hraðbraut!“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga