Gagnaversuppbygging gengur vonum framar. Ljósm: HBE.
Gagnaversuppbygging gengur vonum framar. Ljósm: HBE.
Fréttir | 18. nóvember 2018 - kl. 09:34
Gagnaversuppbygging gengur vonum framar

Hátt í 50 manns vinna nú við að byggja upp stærsta gagnaver landsins á Blönduósi og gera má ráð fyrir fjöldi þeirra nái allt að 80 á næstu vikum, að sögn Karls Sigfússonar byggingarstjóra. Vonast er til að öll húsin sex auk tengigangs, alls um 4.000 fermetrar, verði risin fyrir áramót. Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar, segir að kraftur hafi komist í verkefnið nú á haustdögum með aðkomu alþjóðlegra fjárfesta og gagnaversfyrirtækja og hlutirnir séu að gerast ótrúlega hratt.

Ríkisútvarpið fjallaði um hraða uppbyggingu gagnavers á Blönduósi í fréttum sínum í gær og ræddi bæði við Valdimar bæjarstjóra og Karl byggingarstjóra. Valdimar telur að gagnaverið hafi áfram jákvæð áhrif á atvinnulífið þegar það hefur náð fullri virkni. „Það er nú til einhver formúla sem segir störf per megavatt og eitthvað slíkt, en þá ætti þetta að vera á milli 20 og 30 störf. Síðan vonumst við til að það verði kannski annað eins í afleiddum störfum svokölluðum, þjónustustörfum og aðkeyptri þjónustu og slíku,“ segir Valdimar.

Karl segir að heimafólk sé í miklum meirihluta á byggingarsvæðinu. „Þeir sem sjá um steypivinnuna eru héðan af svæðinu og í reisningum héðan að hluta líka. Það er mikil rafmagnsvinna í þessum húsum eðlilega, þetta er gagnaver, og það er rafvirki héðan af svæðinu og hefur verið að sinna þessu. Jarðvinnuverktakarnir eru úr næsta firði, Skagafirðinum,“ segir Karl.

Fyrsta skóflustunga að gagnaveri Borealis Data Center var tekin í maí á þessu ári og átti að byggja lítið gagnaver í tveimur húsum. Með kaupum Etix Everywhere, sem hefur höfuðstöðvar í Lúxemborg og á meirihluta í félaginu urðu þáttaskil. Gott tíðarfar hefur flýtt framkvæmdum og ekki skemmir fyrir að ráðherra sveitarstjórnarmála hefur ákveðið að styrkja sveitarfélögin á svæðinu um 20 milljónir króna á þessu ári og 25 milljónir næstu þrjú ár, vegna innviðauppbyggingar í tengslum við gagnaverið.

Sjá nánar umfjöllun Ríkisútvarpsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga