Nöldrið | 18. nóvember 2018 - kl. 09:53
Óábyrg ráðstöfun fjármuna

Loksins kom góða veðrið sem við biðum eftir í allt sumar. Það er að vísu svolítið seint að fá ekki sólskinið fyrr en í nóvember og fáir sem nýta það til sólbaða, enda hitastigið ekki hátt. Lognið og veðurblíðuna sem við höfum notið að undanförnu ber að þakka og einnig sólarlagið, þegar allt virðist loga, bæði haf og land.

Samkvæmt nýjustu fréttum eru þeir enn komnir á kreik sem vilja hraðbraut milli Akureyrar og Reykjavíkur. Samgöngufélagið hefur sent Alþingi athugasemdir við þingsályktunartillögu að samgönguáætlun 2019-2033, þar sem í áætluninni verði gert ráð fyrir Húnavallaleið og Vindheimaleið í Skagafirði. Það var auðvitað við því að búast að Eyfirðingar færu aftur af stað með þessar kröfur en þær voru lagðar til hliðar fyrir um 10 árum eftir kröftug mótmæli bæði Húnvetninga og Skagfirðinga enda kostnaðaráætlanir við þessar framkvæmdir vanáætlaðar eins og aðrar kostnaðaráætlanir á vegum hins opinbera. Það er ólíklegt að þeir Skagfirðingar sem berjast gegn því að lögð sé háspennulína frá Blönduvirkjun til Akureyrar samþykki að þjóðvegur 1 verði lagður í beinni línu af Vatnsskarðinu og yfir í Blönduhlíð. Það vita auðvitað allir hvað þjóðvegurinn sem liggur í gegnum Blönduós hefur mikla þýðingu fyrir bæinn og sama má eflaust segja um Varmahlíð, sem hefur byggst upp að miklu leyti vegna þjónustunnar við ferðamenn sem aka þjóðveg 1.

Það er sláandi að sama dag og Húnahornið flutti fréttir af undirskriftarsöfnun Eyfirðinganna var sagt frá íbúafundi í Húnaþingi vestra sem hafa sent hvert neyðarkallið af öðru allt þetta ár vegna Vatnsnesvegar sem eins og sjá má á myndum hefur verið  óökufær í allt sumar og svörin sem fást eru þau að engir peningar verði lagðir í veginn á næstu árum. Vegurinn um Vatnsnes er langt frá því eini vegarkaflinn á landinu sem má heita ókeyrandi og stórhættulegur sökum viðhaldsleysis. Það væri því undarlegt af þeir sem stjórna vegamálum landsins færu að henda hundruðum, já eða þúsundum milljóna í nýjan veg, þar sem þokkalegar samgöngur eru fyrir. Slíkt væri óábyrg ráðstöfun fjármuna.

Það hefur komið fram í fréttum að sveitarstjórn Blönduóss hefur fjallað um að lækkar hámarkshraða í bænum. Því miður er ennþá ekið allt of hratt um margar götur eins og t.d. Hólabraut og Mýrarbraut og víðar. Litlum börnum hefur fjölgað mikið í bænum og þau eru fljót að skjótast út úr heimkeyrslum og út á götuna og enginn vill verða valdur að slysi. Þá trúi ég ekki öðru en gerð verði athugasemd við að leyfður sé framúrakstur á þjóðvegi 1, gegnum bæinn eins og bent var réttilega á í þessum dálkum í sumar.

Blönduósingar geta sannarlega verið kátir með að loksins hófust framkvæmdir við gagnaver. Hafin er starfsemi í fyrsta húsinu og svo rís hver grunnurinn af öðrum með ótrúlegum hraða. Við getum sannarlega við kát og bjartsýn vegna komandi árs sem styttist í að hefji göngu sína.

Tökum kát á móti aðventunni sem er handan við hornið með öllum sínum ljósum og viðburðum.

Kveðja Nöldri.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga