Fréttir | 19. nóvember 2018 - kl. 10:42
Valdimar tók daginn snemma

Valdimar O. Hermannsson sveitarstjóri á Blönduósi tók daginn snemma. Í morgun var hann mættur í myndver N4 á Akureyri til þess að ræða við Karl Eskil Pálsson í þættinum Landsbyggðum, sem sýndur verður á fimmtudagskvöld. Umræðuefnið er meðal annars mikil uppbygging á Blönduósi og framtíðarhorfur.

Þátturinn verður síðan aðgengilegur á huni.is.

Viðsnúningur orðið í sveitarfélaginu
Segja má að Blönduós hafi verið í fókus fjölmiðla síðustu daga vegna jákvæðra frétta af fólksfjölgun og uppbyggingu á staðnum. Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gær var haft eftir Valdimari að viðsnúningur hafi orðið í sveitarfélaginu, ekki síst vegna aðkomu gagnavers. Búið sé að snúa vörn í sókn og stefnir í mikla uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á næstu árum eftir varnarbaráttu undanfarna áratugi. Nefnir hann að við götu eina sé t.d. verið að byggja tvö fyrstu einbýlishúsin á staðnum í tíu ár. Þá sé búið að úthluta lóðum fyrir um 28 íbúðir.

Valdimar sagðist einnig merkja mikla trú á samfélaginu. „Fólk er að flytja hingað, það hefur aukist íbúafjöldinn um 44 frá áramótum, sem er um 5%, sem er mikil breyting frá fyrri tíð. Vonandi heldur það áfram og við stefnum bara í þúsund á næstu árum,“ sagði Valdimar. 

Fjöldi fólks vinnur nú að byggingu gagnavers á Blönduósi. Þetta er milljarðafjárfesting alþjóðlegs fyrirtækis, sem Valdimar telur að hafi einna mest áhrif á þessa þróun. Annars konar atvinnulíf sé þó einnig í sókn, til dæmis ferðaþjónusta, og er búið að úthluta einum 17 lóðum undir atvinnuhúsnæði á þessu ári. Valdimar, sem tók við sem sveitarstjóri í vor, er mjög bjartsýnn. „Það er ekki hægt annað, bara ánægjulegt og gaman að koma inn á þetta svæði í þessum fasa, taka þátt í þessu og fylgja þessu áfram,“ sagði Valdimar í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gær. 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga