Frá Skagastrandarhöfn
Frá Skagastrandarhöfn
Fréttir | 30. nóvember 2018 - kl. 09:47
519 tonna byggðakvóti til Húnavatnssýslna

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur úthlutað alls 14.305 tonnum í sértækan og almennan byggðakvóta. Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða er 5,3% af heildarafla í hverri fisktegund dregið af leyfilegum heildarafla og varið til ýmissa tímabundinna ráðstafana til þess að auka byggðafestu. Þremur sveitarfélögum í Húnavatnssýslum var úthlutað samtals 519 þorskígildistonnum af almennum byggðakvóta. Skagaströnd fær 300, Húnaþing vestra 133 og Blönduósbær 86.

Almennur byggðakvóti fiskveiðiárið 2018/2019 nemur alls 7.876 tonnum, sem eru 6.168 þorskígildistonn. Alls er byggðakvóta úthlutað til 27 sveitarfélags og í þeim fengu 45 byggðarlög úthlutun. Hámarksúthlutun til byggðarlags er 300 þorskígildistonn og fá sex byggðarlög það hámark. Lágmarksúthlutun er 15 þorskígildistonn, eigi byggðarlag á annað borð rétt til úthlutunar, og fá fjögur byggðarlög þá úthlutun.

Úthlutun byggðakvótans byggir á talnaupplýsingum frá Fiskistofu um samdrátt í botnfiskafla, botnfiskaflamarki og vinnslu botnfisks annars vegar og samdrætti í rækju- og skelvinnslu hins vegar frá fiskveiðiárinu 2008/2009 til fiskveiðiársins 2017/2018.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga