Fréttir | 01. desember 2018 - kl. 07:53
Ævintýri Sóleyjar Sifjar

Nú nýverið var ung stúlka á Skagaströnd, Sóley Sif Jónsdóttir, valin í  bókaormaráð RÚV,  enda mikill bókaormur. Við fengum Sóleyju til að segja lesendum Húnahornsins frá þessu mikla ævintýri sem hún upplifði.

Gefum Sóleyju Sif orðið.

Ég var valin í bókaormaráð RÚV og svona var það.

Ég byrjaði á því að vakna, klæða mig og borða morgunmat og svo brunuðum við á RÚV. Þegar að við komum þangað skráðum við okkur inn og biðum svo eftir stjórnandanum, Sigyn, sem kom eftir nokkrar mínútur.

Þegar að hún kom þá röltum við niður í tökuherbergið og okkur var sýnt hvar ég myndi taka viðtal við höfundinn og stelpu sem einnig tók þátt í þessu sem bókaormur.

Ég tók viðtal við Rán Flygering sem reyndar myndskreytti bókina Brjálína Hansen og er því titluð sem myndhöfundur, en það var nú bara skemmtilegt 🙂

Hún var svo góð að teikna myndir í bókina sem ég fékk að eiga.

Loksins kom að því að ég tók viðtalið við bókaorminn sem gekk bara vel, ég byrjaði á að spyrja hana um uppáhalds bókina hennar og svo öfugt. Ég valdi Harry Potter og blendingsprinsinn sem mína uppáhalds bók.

Síðan talaði ég við Rán sem að gekk líka bara mjög vel. Ég kláraði reyndar spurningarnar en þá þurfti ég bara að spinna fleiri upp jafnóðum og allt í einu vorum við búnar að spjalla saman í 23 mínútur 😉.

Ég fékk að skoða safn sem er í sjónvarpshúsinu og þar sá ég fullt af leikbrúðum sem ég hef séð í sjónvarpinu.

Þetta er mjög gaman og ég mæli með að prófa að sækja um þegar þetta verður næst 🙂. Þið getið fylgst með Krakkafréttum og á Krakkarúv ef ykkur langar að heyra viðtölin. Þau verða sýnd á næstu vikum.

Takk fyrir þessa frásögn Sóley, og Húnahornið tekur undir orð þín og hvetur duglega bókaorma til að sækja um í bókaormaráð RÚV.

 

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga