Pistlar | 06. desember 2018 - kl. 09:31
Jólin eru tímalína
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Hún mamma var alltaf allt í öllu ekki síst á aðventunni og um jólin. Hún skreytti, bakaði og eldaði, saumaði og heklaði. Kom fyrir dúkum og kertum. Sparistellið var að sjálfsögðu dregið fram og silfrið fægt. Við mamma bökuðum saman smákökur og piparkökur sem hún leyfði mér að mála og skreyta. Svo leyfði hún mér að föndra mitt eigið jólaskraut sem átti það náttúrulega til að fara allavega. Hún saumaði á mig jólasveinabúninga sem ég fór varla úr. Alltaf svo natin og þolinmóð við mig, þessi elska. Blessuð sé minning hennar.

Fyrir mér var hún mamma eiginlega jólin. - Ásamt pabba að sjálfsögðu sem ég var alla tíð mjög tengdur og naut þess að fara með í útréttingar, sýsla og stússast. 

Þegar sest var til borðs var jólaguðspjallið ævinlega lesið, áður en pabbi bað borðbæn og þakkaði Guði fyrir að senda okkur son sinn og bað þess að í hjarta okkar hann mætti koma inn. Man ég að mér fannst bænirnar framan af ævinni svona helst til langar því spenningurinn fyrir kvöldinu fór vaxandi og því óþreyjan orðin mikil.

Önnur ofurkona 
Tvítugur kvæntist ég síðan sólinni minni sem aldrei dregur fyrir. Komum því ung með blandaðar jólahefðir til að leggja í púkkið sem voru þó alls ekki svo ólíkar. Í áratugi söng hún við aftansöng á aðfangadagskvöld, oftar en ekki jafnvel einsöng. Það truflaði þó ekki að hún væri klár með stórfenglegt hátíðarborð á tilsettum tíma. Með þrjá unga drengi, foreldra mína, móðursystur og jafnvel fleiri frænkur í mat svo allir gátu notið kvöldsins hamingjusamlega afslappaðir og ríkulega mettir. 

Við eigum þrjá syni sem nú eru uppkomnir en komu jólunum okkar í algjörlega nýjan og dásamlegan búning og farveg, fljótlega vatnsgreiddir í svörtum lakkskóm og jafnvel með skyrtuna upp úr áður en kvöldverði lauk. 

Eftirvæntingin í þá daga var gjarnan mikil eins og jafnan. Og gleðin, þótt vissulega hafi verið álag á heimilinu.

Alzheimer
Að því kom að við fluttum í sama hús og foreldrar mínir sem kom sér vel sérstaklega hin síðari ár eftir að mamma fékk heilablóðfall ofan í hinn illskeytta sjúkdóm, Alzheimer.

Það var mikið áfall fyrir okkur þegar hún tók upp á því að kveikja á öllum aðventukertunum fyrsta sunnudag í aðventu. Pabbi var alveg eyðilagður. Snemma aðfangadags hringdi hann svo niður til okkar alveg miður sín og sagði að hún væri búin að slíta allt skrautið af ný skreyttu jólatrénu. Um kvöldið hafði hún slysast til að taka inn svefntöflu áður en hún kom til okkar og sofnaði svo bara ofan í forréttinn, þennan forláta jólagraut. Var gjörsamlega skræld allri virðingu og reisn. Það var svo óendanlega sárt og það á sjálfum jólunum.

Af hverju að rifja þetta upp?
Og af hverju að vera svo að rifja þetta upp? Af því að svona eru einfaldlega jólin og svona hafa þau alltaf verið. Kynslóðir koma og kynslóðir fara og þau tengja okkur í gleði og sorg.

Og nú eru það barnabörnin sem allt snýst um. Þau veita okkur ómælda gleði og hamingju. Við gætum ekki hugsað okkur lífið án þeirra. Þeirra sem vita bara ekkert um foreldra okkar hjóna. En allt snýst í dag um að og gera jólin að tilhlökkunarefni fyrir, eftirsókanarverð, spennandi og heilög.

Minningarnar lifa
En minningarnar lifa, tengja fortíð við nútíð og framtíð á svo undraverðan og undursamlegan hátt, sem þú sást aldrei fyrir en mátt upplifa, njóta og takast á við hverju sinni, ár eftir ár. Jólin taka nefnilega af okkur síbreytilegar myndir. Þau geyma minningar og myndir sem gera okkur að manneskjum. Þau fá okkur til að finna til og elska út af lífinu. Lífinu sem er frelsari allra kynslóða, Jesús Kristur, Guðs sonur, en einnig bróðir okkar allra, samherji og vinur sem fann til og þjáðist en var eftir allt saman lífið sjálft. Lífið sjálft sem sameinar okkur í tímans rás og um eilífð.

Þannig er nefnilega jólasagan. Hún spannar allt litróf mannlegs lífs. Gleði og hamingju, von og vonbrigði, raunir og ótta. Ótta við dauðann. Já og svo líka bara við lífið. Lífið sjálft sem við munum aldrei ná að höndla í eigin mætti.     

Við kunnum að sjá auða stóla sem áður voru setnir. Við fyllumst söknuði á heilagri jólanótt sem færir okkur samt ólýsanlega kyrrð og frið, þakklæti og nýtt upphaf. Vegna fæðingar barnsins þar sem reynsla aldanna kemur saman, tilfinningar og tár, upplifanir, nýir tímar og þakklæti.

Æfing í samskiptum
Ævigangan er  ekkert annað en æfing í mannlegum samskiptum. Þá ekki síst aðventan og jólin. Því þá speglum við okkur svo skýrt og skilmerkilega í sjálfum okkur og náunganum. Aðventan og jólin taka nefnilega af okkur myndir sem varðveitast í albúmi hugans og mást ekki svo auðveldlega í tímans ranni. Myndum sem  verða að minningum sem fylgja okkur ævilangt.

Góður Guð varðveiti okkur minningarnar, í Jesú nafni. Í nafni jólabarnsins sem við fáum að gjöf, ár eftir ár og daglega, og fær okkur til þess að komast af. Jólabarnsins sem fylgir okkur ekki aðeins ævina á enda heldur um alla eilífð.

Gleðilega, innihalds- og hamingjuríka aðventu, kæru vinir og jól sem aldrei munu enda.

Með kærleiks- og friðarkveðju.

Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga