Frá Skagaströnd
Frá Skagaströnd
Fréttir | 08. desember 2018 - kl. 13:15
Sérstök skilyrði verði sett um úthlutun byggðakvóta Skagastrandar

Sveitarstjórn Skagastrandar ætlar að óskað eftir því við atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að sérstök skilyrði verði sett fyrir úthlutun byggðakvóta sem nýverið kom í hlut Skagastrandar, alls 300 þorskígildistonn. Skilyrðin verði þau að við úthlutun byggðakvóta verði kvótanum skipt í tvo flokka. Annars vegar verði úthlutað 45 tonnum til báta með hlutdeild í innfjarðarrækjuveiðum á Húnaflóa sem eru gerðir út frá Skagaströnd og hins vegar 255 tonnum samkvæmt almennum skilyrðum reglugerðar 685/2018 auk þeirrar viðbótar sem kann vera til úthlutunar vegna ónotaðs byggðakvóta á síðasta fiskveiðiári. Hver útgerð sem sækir um byggðakvóta getur þó átt rétt á úthlutun úr báðum flokkum.

Einnig vill sveitarstjórn að við úthlutun byggðakvóta verði gerð sú breyting á forsendum 4. greinar reglugerðarinnar að sá hluti sem úthlutað er til báta með hlutdeild þann 1. september 2018 í innfjarðarrækjuveiðum á Húnaflóa (45 tonnum) verði úthlutuðum heimildum skipt jafnt milli hæfra umsækjenda. Þeim hluta sem úthlutað verður samkvæmt almennum skilyrðum (255 tonnum) verði hins vega skipt samkvæmt ákvæðum 4. greinar reglugerðarinnar. Sú breyting verði gerð að hámark úthlutunar til hvers fiskiskips verði 50 þorskígildislestir. Hámarkið gildi um samanlagða úthlutun í báðum flokkum. Þó skal við úthlutun fyrst reikna að fullu byggðakvóta sem úthlutað er vegna innfjarðarrækjuveiða.

Þá vill sveitarstjórn að veitt verði undanþága frá löndun til vinnslu sem fram kemur í ákvæði 1. málsgreinar 6. greinar reglugerðarinnar. Fiskiskipum verði eftir sem áður skylt að landa í byggðarlaginu.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga