Nöldrið | 12. desember 2018 - kl. 16:35
Þó desember sé dimmur

Þó desember sé dimmur
þá dýrðleg á hann jól.
Með honum endar árið
og aftur hækkar sól.

Já það eru dimmir dagarnir núna. Varla að sólin ná ofan í holuna til okkar, nema á hæstu brekkubrúnirnar. En eins og segir í vísunni góðu stendur þetta allt til bóta og svo fáum við blessuð jólin og áramótin í kjölfarið.

Mér barst athugasemd við síðasta pistil þar sem fjallað var um hraðakstur og framúrakstur. Í pistlinum segist ég ekki trúa öðru en að framúrakstur á þjóðvegi 1, sem liggur í gegnum Blönduósbæ, verði bannaður. Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk, þá er hann bannaður. Aftur á móti segja merkingar vegarins annað og er þar við Vegagerðina að sakast. Vonandi að hún bregðist við sem fyrst og lagfæri merkingarnar þannig að það verði öllum ljóst að framúrakstur sé bannaður á þjóðvegi 1 sem liggur í gegnum bæinn.

Nú á þessum myrkustu dögum ársins velti ég því fyrir mér hvort það þyki orðið hallærislegt að nota endurskinsmerki. Eftir því sem ég fæ best séð eru fáir með slík merki hangandi á sér. Það bjargar að vísu miklu hvað mikið af útivistarfatnaði er með endurskinsræmum saumuðum á flíkina. Einnig vinnufatnaður sem helst karlmenn klæðast. En það eru börnin sem sum hver er erfitt að sjá í þessu myrkri. Mörg hafa notað hjólin á þessum snjóléttu vikum og skjótast þá yfir götu og eftir gangstéttum á ljóslausum hjólum án endurskinsmerkja og eru eins og svartar skuggaverur. Ég hvet foreldra til að huga að öryggi barna sinna og setja endurskinsmerki á útifatnað og ljós á hjólin og að sjálfsögðu að ganga á undan með góðu fordæmi og vera sjálf vel sýnileg í skammdeginu.

Það er ótrúlega mikill snjór kominn á Akureyri og Eyjafirðinum öllum og á öllu Norðausturlandi. Ég hef oft velt því fyrir mér hvar Blönduós og byggðirnar vestan Tröllaskaga séu staðsettar á landinu hjá fréttamönnum. Þeir tala um óhemju mikinn snjó á norðurlandi og sýna myndir frá Akureyri því til sönnunar. Hér, við búum jú líka á norðurlandi ekki satt, hefur varla komið nokkur snjór, það sem af er þessum vetri. Svo hringja vinirnir af höfuðborgarsvæðinu. Hvað bara allt á kafi í snjó hjá ykkur, þurfið þið að moka ykkur úr? Snjófréttirnar heyra þeir í fréttum og vita ekki betur. Við erum vestast á Norðurlandi en erum samt veðurfarslega talin með Norðurlandi öllu þó hér vestan Tröllaskaga sé gjörólík veðrátt en austan við hann.

Á heimilum landsmanna er mikið notað af eggjum nú í aðdraganda hátíðanna. Í baksturinn og ísinn og hvað annað þar sem egg koma við sögu. En veistu hvernig eggin eiga að snúa í eggjabakkanum í hurðinni ísskápnum? Ég er nokkuð viss um að á fleiri heimilum en mínu hefur eggjunum verið raðað þannig að breiðari endinn snúi niður, en það er nú ekki aldeilis þannig sem það á að vera. Það er mjói endinn sem á að snúa niður og þar vitna ég í hávísindalegar rannsóknir samkvæmt heimildum úr Moment of Science þannig geymast eggin lengur og minni líkur er á að eggjarauðan skemmist. Nýlega kom inn á mitt heimili eggjabakki frá Efri-Mýrabúinu þar sem eggin sneru öll með breiðari endann niður. Fuss og svei svona gerir maður ekki.

Nú er ekki langt að bíða jóla og tíminn líður hratt með öllu því stússi sem fylgir undirbúningnum fyrir þau. Þá taka jólahlaðborð, jólatónleikar, jólamarkaðir og allskonar aðrar uppákomur sinn tíma en það hefur verið óvenju mikið af slíku þennan desembermánuð. Ég vona að friður og helgi fylgi jólahátíðinni og við getum öll haldið heilög jól með þeim sem eru okkur kærust.

Jólakveðja, Nöldri.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga