Norðurland vestra
Norðurland vestra
Fréttir | 04. janúar 2019 - kl. 09:49
Íbúum fjölgar á Norðurlandi vestra

Samkvæmt nýjum tölum frá Þjóðskrá Íslands yfir fjölda íbúa eftir sveitarfélögum 1. janúar 2019 eru íbúar í Austur-Húnavatnssýslu 1.853 talsins. Flestir eru búsettir á Blönduósi eða 940 og næst flestir á Skagaströnd eða 451. Íbúar Húnavatnshrepps eru 372 og í Skagabyggð eru þeir 90 talsins. Íbúar í Húnaþingi vestra eru 1.182 talsins miðað við tölur Þjóðskrár. Á Norðurlandi vestra eru íbúar alls 7.230 og hefur þeim fjölgað um 50 á rúmu ári.

Íbúum Blönduósbæjar hefur fjölgað talsvert á síðustu misserum. Þann 1. desember 2017 voru þeir 892 talsins en 1. desember 2018 hafði þeim fjölgað í 935 eða um 43. Í desember síðastliðnum fjölgaði svo íbúum á Blönduósi um fimm til viðbótar.

Á Skagaströnd var fjöldi íbúa 480 þann 1. desember 2017 en 459 ári seinna. Þeim hefur svo fækkað um átta í desember síðastliðnum. Íbúar Húnavatnshrepps voru 387 1. desember 2017 en 374 ári seinna. Íbúum sveitarfélagsins fækkað um tvo í síðasta mánuði. Íbúar í Skagabyggð voru 92 1. desember 2017 en 88 ári seinna og í síðasta mánuði fjölgaði þeim um tvo.

Íbúar í Húnaþingi vestra voru 1.190 þann 1. desember 2017 en fækkaði niður í 1.181 1. desember 2018 eða um níu. Þeim fjölgaði svo um einn í síðasta mánuði og voru 1. janúar 1.182 talsins eins og áður sagði.

Frá 1. desember 2017 til 1. janúar 2019 hefur íbúum á Norðurlandi vestra fjölgað um 50 og eru þeir nú 2% af heildaríbúafjölda landsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga