Hafíssetrið var opnað árið 2006 að frumkvæði Þórs Jakobssonar og með framtakssemi Blönduósbæjar.
Hafíssetrið var opnað árið 2006 að frumkvæði Þórs Jakobssonar og með framtakssemi Blönduósbæjar.
Fréttir | 07. janúar 2019 - kl. 11:37
Óvissa um framtíð Hafíssetursins

Hafíssetrið á Blönduósi hefur ekki verið opið almenningi í rúm þrjú ár. Setrinu var lokað í lok sumars 2015 og hefur ekki verið opnað aftur. Að sögn Valdimars O. Hermannssonar, sveitarstjóra Blönduósbæjar, er ólíklegt að setrið verði opnað aftur, í óbreyttri mynd í það minnsta. Ástæðan sé meðal annars sú að uppfæra þurfi setrið umtalsvert, t.d. að hafa texta á veggspjöldum sýningarinnar á fleiri tungumálum. Dr. Þór Jakobsson, veðurfræðingur og upphafsmaður að Hafíssetrinu, er ósáttur með stöðu mála og kallar eftir afgerandi svari frá Blönduósbæ.

Blönduósi góður staður fyrir Hafíssetrið
Hafíssetrið var formlega opnað 5. júlí árið 2006 í Hillebrandtshúsinu á Blönduósi. Vel gekk fyrstu árin en er á leið reyndist ekki vera grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri með tilliti til aðsóknar. Eigandi Hafíssetursins og hafíssýningarinnar er Blönduósbær en upphafsmaður og höfundur texta var dr. Þór Jakobsson, veðurfræðingur. Sýningarhönnuður var Björn G Björnsson hjá List og Sögu ehf.

Sýningin í Hafíssetrinu er sambland veggspjalda, mynda og muna sem minna á norðurslóðir. Fjallað er um hafís á fjölbreyttan og fræðandi hátt, m.a. um hvað hafís er, norðurslóðir, veðurfarsbreytingar, hafís við Ísland, veðurathuganir á Blönduósi, hafískannanir fyrr og nú, Austur-Grænland og konung norðursins – hvítabjörninn.

Það fer vissulega vel á því að minna á hafísinn á Blönduósi. Bærinn stendur við Húnaflóann sem kenndur er við ungviði hvítabjarnarins en þangað er algengast að hafís komið að ströndum Íslands.

„Hafíssetrið á Blönduósi var að mínu frumkvæði en með góðum undirtektum og aðdáunarverðri framtakssemi Blönduósbæjar,“ segir Þór Jakobsson þegar Húnahornið spurði hann út í stöðu mála varðandi Hafíssetrið og sýninguna sem þar er.

Kallar eftir ákvörðun frá Blönduósbæ
Þór segist vera orðinn langþreyttur á að fá ekki afgerandi svar frá Blönduósbæ um framtíð Hafíssetursins og hafíssýningarinnar. Þannig hafi það gengið í nokkur ár. Hann segist hafa verið í góðu sambandi við Blönduósbæ síðan setrinu var lokað en að sveitarfélagið virðist ekki getað tekið fullnaðar ákvörðun um framtíð þess þar sem ýmislegt sé á döfinni, t.d. varðandi gamla bæinn á Blönduósi, þar sem setrið er til húsa.

„Ég hef verið í stöðugu sambandi með nokkurra mánaða millibili við vin minn Valgarð Hilmarsson. Hann er eðlilega ekki einráður um framtíð Hafíssetursins. Snemma á síðasta ári var mér tjáð að engrar ákvörðunar væri að vænta fyrr en eftir sveitarstjórnarkosningarnar, sem fram fóru í lok maí. Svo þegar þær voru liðnar var mér sagt að ný sveitarstjórn þyrfti að setja sig inn í málið áður en hún gæti tekið ákvörðun um framhaldið. Og þannig standa málin núna.“

Nokkrir hafa sýnt áhuga á að fá sýninguna
Þór segist hafa farið á stúfana á síðasta ári og kannað áhuga annarra á að fá hafíssýninguna. Hönnuður hennar, Björn G. Björnsson, og ýmsir málsmetandi menn í ferðamennsku, telji sýninguna ekki úrelta og að hún gæti gengið í nokkur ár í viðbót. Hann segir að Hvalasafnið á Húsavík og fleiri hafi skrifað sér bréf og lýst yfir áhuga á að fá sýninguna. Þá hafi einnig komið fram ósk frá frumkvöðli í Hrútafirði, sem sé að byggja upp ferðaþjónustu, um að fá sýninguna til sín.

„Vilhelm Sigfús Sigmundsson, eðlis- og stjörnufræðikennari, er að byggja upp aðstöðu fyrir ferðamennsku að Fögrubrekku rétt hjá Staðarskála fyrir botni Hrútafjarðar. Hann er ættaður frá Fögrubrekku en afi hans var þar síðasti ábúandi. Hann vill fá sýninguna til sín en ég get engin svör gefið. Eina sem ég get gert er að bíða eftir svari hvað Blönduósbær ætlar að gera. Það væri gott ef sveitarstjórnin gæti tekið ákvörðun sem fyrst og sagt af eða á, þannig að sá sem vill gjarnan taka við sýningunni þurfi ekki að bíða lengur.“

Hefur átt ánægjulegt samstarf við Blönduósbæ
Þór, sem kallar sig stundum tengdason Húnaþings, segist hafa átt um dagana farsælt og ánægjulegt samstarf við Blönduósbæ um margt og nefnir hann Hafíssetrið, styttuna af Veðurspámanninum eftir Ásmund Sveinsson sem reist var við Félagsheimilið, Þórsstofu í Þekkingarsetrinu í Kvennaskólanum og stöpulinn á Þríhyrnunni sem er til minningar um Sigurð Jónasson frá Eyjólfsstöðum í Vatnsdal.

„Kona mín, Jóhanna Jóhannesdóttir er ættuð frá Saurbæ og Eyjólfsstöðum í Vatnsdal. Sigurður Jónasson frá Eyjólfsstöðum, sem var ömmubróðir Jóhönnu, þýddi kornungur eitt merkasta rit kvenfrelsisbaráttunnar á 19. öld, Kúgun kvenna, eftir enska hugsuðinn John Stuart Mill. Þórsstofa er vinnustofa og fundarherbergi þar sem varðveitt eru skjöl, bækur, munir og myndir frá mér. Vinnustofan, sem aðgengileg er fræðimönnum sem leikmönnum, er vettvangur rannsókna og fræðslu í hafís- og norðuríshafssiglingaleiðinni og afrakstur af vinnu minni og áhuga mínum á norðurslóðum. Vonandi verður þar frekari starfsemi með tíð og tíma,“ segir Þór Jakobsson að lokum og biðlar um leið til sveitarstjórnar Blönduósbæjar að taka ákvörðun sem fyrst um framtíð Hafíssetursins.

Æskilegast væri að opna setrið
Valdimar O. Hermannsson sveitarstjóri á Blönduósi segir í samtali við Húnahornið að ljóst sé að Hafíssetrið verði ekki opnað aftur í óbreyttri mynd. Því hafi verið lokað m.a. vegna þess að komið var að umtalsverði uppfærslu á sýningunni, t.d. að hafa texta á veggspjöldum og við myndir og muni á fleiri tungumálum. Hann segir að það hafi þó verið til óformlegrar skoðunar með einum áhugasömum aðila að reyna að opna sýninguna aftur, byggt á sama efni, með mjög áhugaverðri viðbót, sem félli vel að núverandi grunni Hafíssetursins.

„Þetta er þó háð styrkjum og öðrum atriðum sem eru í vinnslu þannig að það er ekki orðið ljóst hvort setrið nær að opna aftur í breyttri mynd fyrir næsta sumar, þó svo að það væri vissulega æskilegast í stöðunni.“

Valdimar segir einnig að vinna sé farin af stað við deiliskipulagsvinnu fyrir gamla bæinn þar sem allt skipulag verði endurskoðað og hugað að aðkomu, allri þjónustu, bílastæðum og síðan innra skipulagi gamla bæjarins og fegrun hans.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga