Fréttir | 07. janúar 2019 - kl. 13:29
Birta tekur á byggingamarkaði

Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, sagði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag að húsnæðisskortur hafi hamlað uppbyggingu á Hvammstanga. Hún telur afar mikilvægt að farið sé að birta til á byggingamarkaði á svæðinu en eins og fram hefur komið í fréttum Húnahornsins er fyrirhugað að byggja tvær 20 íbúða blokkir á Blönduósi og Hvammstanga.

Íbúðirnar eru komnar á sölu og er stefnt að afhendingu eftir rúm tvö ár en sami fjárfestirinn stendur að þeim báðum. Alls verða 20 íbúðir í hvoru húsi, tveggja til fjögurra herbergja og á bilinu 60-100 fermetrar að stærð. Engin blokk er af þessari stærðargráðu á Hvammstanga.

„Fólk hefur reynt að redda sér með því að flytja inn á ættingja eða vini, eða búa í húsnæði sem kannski það myndi ekki sætta sig við annars. En það hefur staðið fyrirtækjum fyrir þrifum að það sé ekki viðunandi eða gott húsnæði í boði,“ sagði Guðný í hádegisfréttunum. Hún skynjar aukinn áhuga ungs fólks á að flytja í sveitarfélagið, atvinnulíf sé fjölbreyttara en áður og ferðamannastraumurinn þónokkur. „Það verður kærkomið að fá þessar íbúðir sem þarna eru en ég á ekki von á því að það dragi neitt úr nýbyggingum,“ sagði Guðný.

Sjá nánar frétt Ríkisútvarpsins hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga