Frá fundinum.
Frá fundinum.
Fréttir | 10. janúar 2019 - kl. 12:18
Textílmiðstöð Íslands – þekkingarsetur á Blönduósi verður til

Búið er að samþætta Textílsetur Íslands, sem stofnað var árið 2005 og Þekkingarsetrið á Blönduósi, sem stofnað var árið 2012, í Textílmiðstöð Íslands – þekkingarsetur á Blönduósi. Með því sameinast tilgangur og markmið beggja stofnana, fulltrúaráð, stjórn, starfsmenn og verkefni. 

Þann 8. janúar var haldinn í Félagsheimilinu á Blönduósi, fulltrúaráðsfundur með fulltrúarráði og fráfarandi stjórnarmönnum Textílseturs Íslands og Þekkingarsetursins á Blönduósi. Þar mættu fulltrúar frá Atlantic Leather – Gestastofa Sútarans, Blönduósbær, Byggðastofnun, Byggðasamlag um atvinnu og menningarmál, Farskólinn - Miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra, Ferðamálasamtök Norðurlands vestra, Fjölbrautaskólinn Norðurlands vestra, Háskólinn á Bifröst, Heimilisiðnarfélagið Íslands, Húnavatnshreppur, Ístex, Kidka, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, Listaháskóla Íslands, Myndlistaskóla í Reykjavík, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Landsvirkjun, Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Textílfélag Íslands, Uppspuni og Vinir Kvennaskólans. Á dagskrá var kynning á starfseminni, stefnumótun og fulltrúarráðsfundur þar sem kosinn var ný stjórn.

Fundurinn hófst á inngangsorðum Elsu Arnardóttur forstöðumanns. Jóhanna E. Pálmadóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri Textílsetursins, kvaddi starfsheiti sitt með væntumþykju og virðingu og gladdist yfir því að halda áfram að vinna að textílmálum í öflugu samstarfi. ,,Textílinn er fjöregg okkar Húnvetninga og við verðum að gæta þess“. Í framhaldinu kynnti Katharina Schneider verkefnastjóri nýja heimasíðu, www.textilmidstod.is, sem mun opnast innan skamms.

Stefnumótunin var leidd af Karli Friðrikssyni framkvæmdastjóra þróunarsviðs Nýsköpunarmiðstöðvar og kom í ljós að fulltrúar voru mjög samhljóða áherslum sem komu fram á fundinum. Áherslur sem komu til tals voru m.a. menntun, atvinnusköpun, rannsóknir og þróun í ferðaþjónustu í tengslum við textíl, menningu og sögu svæðisins.

Nýsköpunarmiðstöð mun vinna áfram með niðurstöður úr stefnumótunarvinnunni og verður sú niðurstaða leiðarljós starfseminnar í Kvennaskólanum.  

Ný stjórn er skipuð af: Karl Friðriksson frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, formaður. Hulda Brynjólfsdóttir frá Uppspuni, ritari og varaformaður. Unnur Valborg Hilmarsdóttir frá SSNV, Helga Sigurbjörnsdóttir frá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands, Katrín María Káradóttir frá Listaháskóla Íslands. Varamenn: Guðríður H. Helgudóttir, Ferðamálasamtök NV, Halldór G. Ólafsson, Byggðasamlag um menningar og atvinnumál, Sigurður S. Gunnarsson, Ístex, Hulda I. Rafnarsdóttir, Háskólinn á Bifröst, Ragna Fróðadóttir, Textílfélagið Íslands.

Við þessa samþættingu er horft til enn öflugri uppbyggingu textílsamfélags á svæðinu.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga - New