Erla og Sigríður. Ljósm: PF/Feykir.is.
Erla og Sigríður. Ljósm: PF/Feykir.is.
Fréttir | 12. janúar 2019 - kl. 09:53
Lausnamið – nýtt fyrirtæki á Skagaströnd

Lausnarmið, nýtt sprotafyrirtæki á sviði bókhaldsþjónustu og rekstrarráðgjafar, tók til starfa í síðustu viku á Skagaströnd. Í fyrradag var opið hús og gestum boðið að þiggja veitingar og fræðast um reksturinn. Rúmlega 70 manns þáðu boðið. Eigandi fyrirtækisins er Erla Jónsdóttir, rekstrarfræðingur, og með henni starfar Sigríður Gestsdóttir, viðurkenndur bókari.

Lausnamið bíður upp á alla helstu bókhaldsþjónustu hvort heldur sem er fyrir einstaklinga, fyrirtæki, félagasamtök eða stofnanir. Einnig er boðið upp á endurskoðun reikninga þar sem gerður hefur verið samstarfssamningur við endurskoðunarfyrirtækið Enor á Akureyri.

Héraðsfréttablaðið Feykir var á Einbúastíg 2 á Skagaströnd í fyrradag og á feykir.is má sjá myndir frá opna húsinu.

Í tilefni dagsins var fyrirtækinu formlega afhent bókhaldsgögn nokkurra fyrirtækja, félaga og stofnana, m.a. Halldór Gunnar Ólafsson, oddviti sveitarstjórnar Skagastrandar, sem hvatti í ávarpsorðum sínum, fólk og fyrirtæki á Skagaströnd, stór- Húnavatnssýslna-svæðinu, Skagafirði og Íslandi öllu til að beina viðskiptum sínum til þessa nýja fyrirtækis enda ekki hægt að ætlast til þess að fyrirtæki starfi í sveitarfélaginu ef viðskiptum væri beint annað.

Heimasíða fyrirtækisins er lausnamid.is og þar er hægt að finna nánari upplýsingar um starfsemi og sögu fyrirtækisins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga