Nöldrið | 14. janúar 2019 - kl. 09:32
Nýtt spennandi ár

Gleðilegt nýtt ár og þakkir fyrir samfylgdina á árinu sem var að ljúka.

Nú er úr vöndu að ráða. Um hvað er hægt að nöldra á þeim góðæristímum sem við Blönduósingar lifum nú. Samkvæmt fréttum er hér allt að gerast. Gagnaverið komið og er farið að auglýsa eftir starfsfólki, byggingar hafnar á atvinnu- og íbúðarhúsum, bygging blokkar væntanleg á þessu ári og fólksfjölgun slík að Blönduós er einn af hástökkvurum í íbúafjölgun á síðasta ári.

Það var mikið um alls konar afþreyingu í desember, jólamarkaðir, tónleikar, upplestur úr nýjum bókum og fleira og fleira. Gaman var að heimsækja gamla bæinn einn laugardag í desember, þegar íbúar hans „buðu heim.“ Flest fyrirtæki þar voru opin og fólk spjallaði saman meðan það naut veitinga sem alls staðar voru í boði. Var það mál manna að vel hefði tekist til og talað um að úr því að sveitarstjórnin héldi sjaldan íbúafundi, ættu íbúarnir bara sjálfir að hafa forgöngu um slíkt og hittast einu sinni á ári og ræða málefni sem á þeim brenna.

Það er ánægjulegt að tónlistafólk þjóðarinnar er að uppgötva hvað kirkjan okkar er frábært tónleikahús en tvennir jólatónleika voru haldnir þar í desember. Nánast húsfyllir var á tónleikum Heru Bjarkar, en Eyþóri Inga tókst að troðfylla kirkjuna svo varla var hægt að troða inn fleiri aukastólum. Það ber að þakka þeim listamönnum sem leggja það á sig að koma með tónleika sína til okkar á landsbyggðinni og snjöll hugmynd að bjóða heimamönnum að taka þátt í flutningi með sér. Hera Björk naut liðsinnis barnakórs frá Skagaströnd og frábærra söngvara úr Húnaþingi vestra, ásamt henni Hugrúnu okkar allra. Eyþóri Inga dugði ekkert minna en Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps sem stóð sig með mikilli prýði að vanda. Þar sem ég skrifa nú þessa langloku, Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps, spyr ég hvenær ætla þeir ágætu kallar að breyta nafni kórsins og gera það aðeins þjálla í munni. Í nafni kórsins eru 28 stafir og þykir eflaust mörgum nóg um fyrir nú utan það að Bólstaðarhlíðarhreppur er ekki lengur til og þyrfti kórinn því að heita Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps hins forna og þá væri stafarunan orðin 37 stafir.

Hvað á að verða um Hafíssetrið og hvað á verða um Hillebrandtshús spyr margur. Það var til lítils að gera upp þetta gamla hús og státa af því að það sé elsta timburhús landsins, ef það á að standa autt og engum til gagns. Þegar Hafíssetrinu var komið fyrir þar inni hélt maður að framtíð hússins væri tryggð en alveg frá byrjun hefur alls ekki verið staðið nógu vel að þeirri sýningu. Þar vantar góða leiðsögn á a.m.k. 2-3 tungumálum og það þurfa að vera „lifandi” myndir á skjá í þessu tilfelli, hafís á norðurslóðum og allt sem honum getur fylgt. Það þarf að gera miklu skýrari mynd og frásagnir af  þiðnun íssins á norðurslóðum sem er einmitt í umræðunni um allan heim um þessar mundir. Söfn sem bjóða ekki upp á annað en lestur texta af  spjöldum eru leiðgjörn og gamaldags og fáir nenna að skoða þau. Auðvitað kostar mikið fé að koma upp áhugaverðu safni og uppfæra það svo eftir þörfum og kröfum tímans. En menning kostar peninga og hver vill vera án menningar. Það er óskandi að sveitarstjórn Blönduóss og Þór Jakobsson, sá mæti maður, geti komist að samkomulag um framtíðarskipulag á safninu, svo það verði ekki selt í burtu eins og orðað hefur verið.

Það er varla búið að borða afgangana af  jólamatnum þegar þorramaturinn birtist í búðunum. Nú eru framundan blessuð þorrablótin sem enginn lætur fram hjá sér fara og þeir sem hafa náð af sér tveimur kílóum eftir jólin geta nú náð þeim á sig aftur.

Njótum, hækkandi sólar og um leið og ég óska jólahúsafjölskyldunni til hamingju með sigurinn, minni ég alla á að kjós mann ársins.

Með kveðju, Nöldri.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga