Pistlar | 06. febrúar 2019 - kl. 12:44
Setur veðra og vinda við Húnaflóa? - „Uppfærsla“ Hafíssetursins á Blönduósi
Eftir Þór Jakobsson

Nýlega fjallaði huni.is um Hafíssetrið á Blönduósi og hægfara stöðnun þess sem hófst af ýmsum ástæðum fyrir nokkrum árum. Hafíssetrið gekk vel fyrstu árin en hamlandi aðstæður urðu til þess að ekki þótti fært að reka það áfram. Sýningin er í frekar þröngu Hillebrandtshúsinu sem er merkilegur safngripur eitt og sér en eðlilega annmörkum háð fyrir sýningarhald. Endurnýjun varð ekki sem skyldi og aðsókn fór dvínandi með árunum.

Ekki bætti úr skák að áhugi á náttúrufyrirbærinu hafís og norðurslóðum hélst ekki hjá þeim sem réðu stefnunni. Því má bæta við að svonefnd Þórsstofa er í Þekkingarsetrinu í Kvennaskólanum með munum og skjölum sem ætlunin var að yrði vísir að starfsemi um hafís, siglingar í norðurhöfum og Norður-Íshaf. Allt þetta liggur nú í dvala með óvissa framtíð.

Óþarft er að fjölyrða hversu mjög Íslendingar eru háðir veðri og vindum, bæði á höfum úti og á þurru landi. Sé lagt við hlustir er athyglisvert að nánast í hverjum fréttatíma er minnst á atvik eða aðstæður þar sem veður eða veðurfar kemur við sögu. Veður, lofthjúpur jarðar, hafið og víxláhrif hafs og lofts eru því meðal þeirra náttúrufyrirbrigða sem nauðsynlegt er að fræðast um og kynna fyrir Íslendingum og gestum og gangandi í heimsókn á Íslandi.

Komið er tilboð frá Fögrubrekku fyrir botni Hrútafjarðar þar, sem ferðamiðstöð er í uppsiglingu, steinsnar frá Staðarskála, að taka við hafíssetrinu í Hillebrandtshúsi þar sem sýningin gæti nýst í nokkur ár í viðbót. Vonandi þiggur Blönduós það góða boð í stað þess að láta sýninguna standa óséða bak við lás og slá enn eitt sumarið.

Hins vegar hef ég í bréfi til sveitarstjórnar Blönduósbæjar stungið upp á því að Blönduósbær „spýti í lófana“ og færi aftur á dagskrá gamlar hugmyndir um sýningar á sviði náttúru og mannlífs. Hvergi færi betur á slíku en á Blönduósi við Húnaflóa. Hefur sveitarstjórn fjallað um bréf mitt og munum við Valdimar O. Hermannsson ræða málið nánar á næstunni.

Söfn og setur á sviði jarðfræði, einkum á Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu, dafna vel og eru aðdráttarafl fyrir Íslendinga og ekki síst fyrir ferðamenn. Nútímasetur og sýning  um veður, veðurfar, veðurfarssveiflur, haf og hafís með áherslu á norðurslóðir og Norður-Íshaf vantar og einmitt á Blönduósi ætti setrið að rísa í sérhannaðri byggingu (t.d. á svæðinu milli Hnjúkabyggðar og Blöndubyggðar?). Áreiðanlega yrði slíkt hús vinsælt meðal Húnvetninga og sjálfsagður áningarstaður ferðamanna á leið norður eða suður.    

Þór Jakobsson veðurfræðingur                                                                thor.jakobsson@gmail.com

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga