Hákarlavettlingur. Ljósmynd: Ýr Jóhannsdóttir,
Hákarlavettlingur. Ljósmynd: Ýr Jóhannsdóttir,
Magnús tekur við verðlaunum fyrir besta giskið úr
höndum Jóhönnu, verkefnisstjóra Prjónagleðinnar
Ljósmynd: nemandi í Concorida Háskóla.
Magnús tekur við verðlaunum fyrir besta giskið úr höndum Jóhönnu, verkefnisstjóra Prjónagleðinnar Ljósmynd: nemandi í Concorida Háskóla.
Fréttir | 08. febrúar 2019 - kl. 21:58
Prjónagleði 2019
Eftir Jóhönnu Erlu Pálmadóttur

Prjónagleði 2019 verður haldin 7.-10. júní í sumar og er þemað að þessu sinni „Hafið“ en laugardagur Prjónagleðinnar er Dagur hafsins. Hátíðin ber upp á hvítasunnu sem býður upp á fleiri daga og meiri samveru. Spennandi dagskrá er í boði og eru allir hvattir til að líta á nýja heimasíðu Textílmiðstöðvar Íslands www.textilmidstod.is en þar eru allar upplýsingar um hátíðina.

Nýir kennarar mæta til leiks og þökkum við öðrum sem lagt hafa okkur lið fyrir þeirra uppbyggingu á Prjónagleðinni. Einn af okkar þekktustu prjónahönnuðum Ýr Jóhannsdóttir hannaði vettlinga sem tengjast þema Prjónagleðinnar Hafinu. Tengil á; Vettlingauppskriftir Ýrar. Allir eru hvattir til að taka þátt í að prjóna sína útgáfu af vettlingum með þema hátíðarinnar fyrir augum og senda okkur mynd af þeim. Ýr mun verða með námskeið og fyrirlestra á hátíðinni. Kennarar koma víða að eins og áður bæði innlendir sem erlendir. Boðið eru upp á námskeið á íslensku, ensku og dönsku. Látið það samt ekki aftra ykkur því prjón er alþjóðamál!

Nú verður í fyrsta sinn og kannski tími til kominn að hafa námskeið fyrir byrjendur. Haldin verður Prjónasamkeppni og í ár er þemað Hafið og verður leitað eftir hinu eina og sanna „sjávarsjali“ Reglurnar eru á heimasíðunni og þau sjöl sem komast í undanúrslit verða til sýnis yfir hátíðina.

Prjónhátíðin styður við þá ímynd bæjarins að vera áhugaverður áfangastaður fyrir fólk sem hefur áhuga á textíl sem eru margir því textíllinn hefur fylgt okkur frá örófi alda. Enda er Heimilisiðnaðarsafnið vinsæll áfangastaður og eina safnið á landinu sem er með textílinn í aðalhlutverki. Prjónagraffarar bæjarins skreyta bæinn með glaðlegu graffi á hverju ári og taka líka þátt í umræðunni um þjóðmál og listir með því að láta verkin tala.

Prjónagleðin sem nú er haldin í fjórða sinn gefur líka endalausa möguleika á útfærslum í samstarfi við heimamenn og vonandi á hún eftir að laða að sér sífellt fleiri áhugasama prjónara nær og fjær. Setning prjónagleðinnar verður á föstudeginum og er öllum opin og vonumst við til að sjá sem flesta. Að þessu sinni verða seldir passar. Dagpassi gildir fyrir fyrirlestra, afslætti og viðburði þann daginn, helgarpassinn gildir fyrir alla fyrirlestra, afslætti o.fl. á prjónagleðinni. Ef keypt eru þrjú námskeið eða fleiri fylgir helgarpassinn frítt með.

Ýmsar uppákomur hafa verið og verða á hátíðinni. Vert að minnast prjónatalningarinnar í fyrra en Magnús okkar á Vindhæli vann en hann giskaði á 236 prjóna og var bara tveimur prjónum frá réttum fjölda sem var 238 prjónar. Vel gert Magnús.

Skemmtilegt prjónaverkefni var unnið á síðasta ári í tengslum við fullveldishátíðina. Skólarnir á svæðinu tóku þátt, prjónuðu búta úr Álafoss lopa í fánalitunum sem síðar voru saumaðir saman og hengdir upp á Prjónagleðinni. Rétt fyrir Prjónagleðina barst erindi um hvort Húnvetningar gætu skreytt súlur við vopnaleitina í Leifsstöð með prjónlesi og mundi sú skreyting standa yfir fram undir jól. Þetta varð til þess að fræknar konur á svæðinu helltu sér í að prjóna ýmiss konar andlit, kindur og íslensk munstur á búta sem síðar voru skeyttir inn í prjónateppi skólanna. Út úr þessu urðu tvö stór teppi sem hengd voru upp og vöktu þau óskipta athygli.

Margar sögur hafa komið til okkar um aðdáun á teppunum og flestir klöppuðu þeim og margir föðmuðu þau. Teppin eru komin í hús og eins og upphaflega markmiðið var, verða þau tekin í sundur og útbúin minni teppi til að gefa síðan til hjálparstarfa eða réttra stofnanna. Munu teppin liggja frammi á Prjónagleðinni í sumar til að sem flestir geti tekið þátt í að taka þau í sundur, búta til hæfilega stór teppi og jafnvel skreyta kanta og gera þau fín. Þetta mun fara fram í kósíhorninu og allir velkomnir í verkið.

Vonumst til að sjá ykkur sem flest.

Með góðri kveðju úr Textílmiðstöðinni í Kvennaskólanum,
Jóhanna Erla Pálmadóttir, verkefnisstjóri Prjónagleðinnar 2019

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga