Mynd úr skýrslunni.
Mynd úr skýrslunni.
Fréttir | 12. febrúar 2019 - kl. 11:31
Landbúnaður mikilvægastur Norðurlandi vesta

Landbúnaður er mikilvægastur Norðurlandi vestra þar sem hann er 8% af framleiðsluvirði landshlutans. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem fjallar um landfræðilegt og efnahagslegt litróf landbúnaðar á Íslandi. Skýrslan var unnin að frumkvæði Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar sem efndi til samstarfs allra atvinnuþróunarfélaga og landshlutasamtaka á landinu. Tilefni hennar má rekja til breytinga á ytra umhverfi atvinnugreinarinnar. Þar má nefna afkomu hennar ásamt frekari áformum um innflutning á erlendum búvörum, en jafnframt aukna meðvitund um áskoranir í umhverfismálum, vistspori neytenda, matarsóun, velferð dýra og heilnæmi þeirra matvæla sem neytt eru.

Að skýrslunni komu því Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hf., Austurbrú, Heklan – Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Vífill Karlsson hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi vann skýrsluna.

Í niðurstöðum kemur fram að velta landbúnaðar á Íslandi var 73,2 milljarðar króna árið 2017 og hafði hún aukist um 13 milljarða frá árinu 2008 að raungildi. Þegar horft er til rekstrartekna er landbúnaður stærstur á Suðurlandi eða um 28% og næst stærstur á Norðurlandi eystra og Vestfjörðum, 16%. Á Norðurlandi vestra er hann 11%. Minnstur er hann á Suðurnesjum eða 3%.

Rekstrartekjur sauðfjárræktarinnar voru að jafnaði árlega um 13 milljarðar króna árin 2013-2016. Hlutur Norðurlands vestra var mestur, 24% enda fjöldi sauðfjár þar mestur eða um fjórðungur. Vöxturinn var hins vegar mestur á Vesturlandi og Suðurlandi á milli tímabilanna 2009-2012 og 2013-2016 eða 15% á hvoru svæði um sig. Vöxturinn var 9% á landinu öllu.

Ef skoðað er hlutfallslegt vægi landbúnaðar í samanburði við aðrar atvinnugreinar innan landshlutans kemur í ljós að landbúnaður er mikilvægastur á Norðurlandi vestra þar sem hann er 8% af framleiðsluvirði landshlutans samanborið við 6% á Suðurlandi, 3% á Norðurlandi eystra og Vestfjörðum og 2% á Vestur- og Austurlandi.

Skýrsluna í heild má lesa hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga