Nöldrið | 14. febrúar 2019 - kl. 15:50
Ekki boðlegt að fæða börn á fjallvegum

Aldrei fór það svo að við fengjum ekki snjó á þessum vetri. Hann hefur eflaust verið mörgum kærkominn og hefði mátt vera miklu meiri að sumra mati og kannski á eftir að bæta á, hver veit.

Þegar þetta er ritað er þegar búið að halda tvö þorrablót hér á Blönduósi. Annað fyrir bæjarbúa og gesti, sem þótti takast með eindæmum vel og svo hreppablótið sem svo er kallað, þar sem nágrannar okkar út sveitunum flykkjast í Félagsheimilið okkar og blóta sinn þorra, og nú urðu engir veðurtepptir og allir komust til síns heima að loknu blóti, eða var ekki svo?

Margt virðist vera að breytast í þorrablótshaldi landsmanna. Hjá einhverju íþróttafélagi á höfuðborgarsvæðinu sem hélt fjölmennt þorrablót var sérstakt borð þar sem boðið var upp á vegan rétti. Ekki ólíklegt að nefklemmur hafi fylgt aðgöngumiðum á blótið handa þeim sem þola ekki einu sinni lyktina af þorrakrásunum sem boðið er uppá. Er nú ekki bara betra að borða heima, ég bara spyr?.

Það er orðin hefð á Blönduós blótinu að heiðra mann ársins, sem lesendur Húnahornsins hafa valið og nú var ekki aðeins valinn maður, heldur líka hundur. Guðjón Ragnarsson og hundurinn Tinni hlutu verðskuldaða viðurkenningu fyrir að vekja íbúa í húsi hér í bænum eldsnemma morguns, en hætta var á að eldur frá brennandi hjólhýsi í heimkeyrslu hússins hefði kveikt í húsinu, enda rúður farnar að springa í því. Minnist fólk þess ekki að hundur hafi mætt á þorrablót með fóstra sínum til að taka við verðlaunum. En allt verður einu sinni fyrst. Nöldri óskar þeim félögum til hamingju með titilinn.

Það bar til tíðinda laugardagsmorguninn sem þorrablótið var haldið að veðurspámaðurinn á torginu framan við félagsheimilið hafði verið færður í prjónaðar buxur, eða sundskýlu. Ekki veit ég hver stóð að þessari uppákomu, en talað hefur verið um að þetta sé skiljanlegt í ljósi nýjustu atburða í þjóðfélaginu. Það er ekki vel séð að hafa málverk af nöktum konum á veggjum í opinberum byggingum þó tugir kvenna sprangi berbrjósta um miðbæ Reykjavíkur sumar hvert. Það er því ekki skrýtið að það særi blygðunarkennd sumra að horfa árum saman á kallinn á typpinu á bæjartorginu eins og börnin segja. Það má annars undrum sæta að prjónakonur bæjarins, hafi ekki prjónað utan um manninná torginu, jafn ötullega og þær ráðast á ljósastaura bæjarins vor hvert.  

“Ekki boðlegt að fæða börn á fjallvegum”, segir sveitarstjóri Skagafjarðar í grein sem skrifuð er vegna hugmyndar Skagfirðinga og Eyfirðinga um að skora á ríkisstjórnina að tryggja fjármagn til undirbúnings byggingu jarðganga undir Tröllaskaga, sem lægju úr Hjaltadal yfir í Hörgárdal. Þessi leið, til að greiða fyrir samgöngum á Norðurlandi, gerir ráð fyrir að þjóðvegur 1 liggi áfram gegnum Blönduós og þá féllu hugmyndir um Húnavallaleið um sjálft sig enda arfavitlaus hugmynd. Aftur á móti yrðu þessi jarðgögn gegnum Tröllaskaga 18 km löng og þau lengstu á Íslandi og styttu leiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar um 30 km. Noregur á víst metið í lengd jarðganga eða 22 km. löng göng. Sérfræðingar Vegagerðarinnar efast um að ráðist verði í svona löng jarðgöng hér á landi í næstu framtíð og benda á að hagkvæmara gæti verið að athuga með göng undir Öxnadalsheiði. Þau yrðu ekki sama tengin milli þéttbýlisstaða á Norðvestur- og Norðausturlandi. Svona tenging eins og kæmi ef borað yrði gegnum Tröllaskaga, yrði gríðarleg lyftistöng bæði atvinnu- og menningarlega fyrir þennan landsfjórðung og ekki skal gleyma öryggi þeirra sem sækja þurfa læknisþjónustu til Akureyrar að vetri til, oft í óveðri og ófærð. Nú þurfa bara allir að leggjast á eitt og koma málinu á skrið svo hægt verði að ráðast í rannsóknir á svæðinu.

Við hér um slóðir getum sannarlega tekið undir með Sigfúsi Inga Sigfússyni sveitarstjóra Skagafjarðar að það sé með öllu ólíðandi ástand að konur þurfi að fæða börnin í sjúkrabílum úti á þjóðvegum landsins í misjöfnun veðrum og sannarlega þörf á að gera eitthvað róttækt í þeim málum, annaðhvort með bættum samgöngum eða fjölgun fagfólks á sjúkrastofnunum okkar. Þau eru ófá húnvetnsku og skagfirsku börnin sem hafa fæðst við slíkar aðstæður. Oft hef ég velt fyrir mér hver sé skráður fæðingastaður þeirra. Mér er ókunnugt um hvaða ár var hætt að taka á móti börnum á sjúkrahúsinu á Blönduósi. Giska á að það séu sirka 15-20 ár síðan. Þá voru hér starfandi ljósmæður og læknar búsettir í bænum og þekktu sitt heimafólk, sem er ekki lítill kostur.

Nú styttist í að heimilisfólkið vakni í dagsbirtu á morgnanna og það er gleðiefni a.m.k á mínu heimili. Það þýðir bara eitt, veturinn styttist í annan endann. Þess vegna rak ég upp stór augu þegar ég komst að því að ekki var búið að ganga frá ráðningu á viðburðarstjóra fyrir næstu Húnavöku. Ekki einu sinni farið að auglýsa eftir neinum slíkum um mánaðarmót janúar/febrúar. Sá eða sú sem tekur verkið að sér, má láta hendur standa fram úr ermum þessa tæpa fimm mánuði sem eru til Húnavökunnar.

Ég kveð ykkur að sinni og óska ykkur alls hins besta í dagsins önn og amstri.

Nöldri.

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga