Félagsheimilið Hvammstanga. Ljósm: hunathing.is
Félagsheimilið Hvammstanga. Ljósm: hunathing.is
Fréttir | 15. febrúar 2019 - kl. 11:18
Unnið að því að Húnaþing vestra eignist Félagsheimilið á Hvammstanga að fullu

Húnaþing vestra vinnur að því að taka yfir eignarhald Félagsheimilisins á Hvammstanga. Sveitarfélagið er 86% eigandi en 14% er í eigu Kvenfélagsins Bjarkar og Ungmennafélagsins Kormáks. Málið hefur verið rætt óformlega milli aðila en hugmyndin er að kvenfélagið og ungmennafélagið afsali sínum hlut en fái um leið samning um afsláttarkjör af leigu til næstu 25 ára. Er þetta talin besta færa leiðin til að hægt sé að fara í uppbyggingu og lagfæringu á húsnæði Félagsheimilisins en annars er hætt við að sú vinna tefjist um ókomin ár.

Þetta kemur fram í bókun sem sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum í gær. Í henni segir að undanfarnar vikur hafi verið unni að málinu í samstarfi við lögfræðing og endurskoðanda sveitarfélagsins og að málið sé í samræmi við stefnu B-lista. Þar segir einnig að ljóst sé að meðeigendur sveitarfélagsins í félagsheimilinu hafi ekki það fjármagn, í hlutfalli við eignaraðild, sem til þarf til að vinna að nauðsynlegu viðhaldi og endurbótum á húsnæðinu, og að ástand hússins sé ekki sæmandi því góða starfi sem þar fari fram.

Ef af verður mun Félagsheimilið á Hvammstanga verða eins og hver önnur B-hluta stofnun sveitarfélagsins. Á fundinum var samþykkt að oddvitar beggja lista í sveitarstjórn og sveitarstjóri ræði við stjórn Kvenfélagsins Bjarkar og stjórn Ungmennafélagsins Kormáks með það að markmiði að Húnaþing vestra yfirtaki eignarhaldið.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga