Fréttir | 18. febrúar 2019 - kl. 14:02
"Seafaring sheep of the Hebrides"
Frá Textílmiðstöð Íslands - þekkingarsetur á Blönduósi

Síðastliðinn föstudag var haldin áhugaverð kynning á Blönduósi um sauðfjárrækt á Suðureyjum á vegum sauðfjárbóndans og listamannsins Meg Rodger sem dvelur nú í Textíllistamiðstöðinni í Kvennaskólanum. Meg og fjölskylda búa með u.þ.b. 120 kindur á eyju sem kallast upp á íslensku "Björnsey" og er hún ein af mörgum smáum eyjum við Suðureyjar. Suðureyjar eða "Hebrides" eins og þær kallast eru hluti af Skoska eyjaklasanum.

Kindurnar frá Suðureyjum eru náskyldar íslensku kindinni af svo kölluðu stuttrófukyni. Þær hafa þróast þannig að þær eru allar svartar en eru enn með bæði tog og þel. Kindurnar voru nánast útdauðar en enn voru þó til nokkrar kindur í einhvers konar dýragarði sem varðveitti ýmsa stofna frá öllum eyjum og svæðum á Bretlandi. Á seinni hluta síðustu aldar keypti nágranni Meg af næstu eyju, nokkrar kindur frá garðinum og þegar þau fjölskyldan byrjuðu búskap fyrir tíu árum síðan keyptu þau sex kindur af nágrannanum sem síðan hafa komist upp í þann fjölda sem eyjan þolir. Nú eru þau komin á þann stað að geta valið úr bestu lömbin til ásetnings með tilliti til kjöt- og ullargæða.

Eyjan er frekar lítil eða 5 km x 3 km og á henni búa um 120 íbúar yfir vetrartímann. Yfir sumarið tvöfaldast íbúatalan. Vegna þess að eyjan er svo lítil byggist búskapurinn mikið upp á að sigla með féð á milli eyja á bát sem þau hafa en maðurinn hennar er sjávarlíffræðingur og nýtir bátinn líka í rannsóknarstörf. Féð gengur úti allt árið.

Meg er m.a. að kanna tengingu á milli sauðfjárins hér og þar með því m.a. að safna orðum sem nýtt eru í sambandi við sauðfjárbúskap og söfnuðust mjög mörg orð á fundinum. Þessi orð verða þýdd yfir á ensku og síðan verða íslensku orðin borin saman við gelísku. Nágranni Meg talar gelísku sem og aðrir eyjabúar en þar sem hann er rúmlega 90 ára bindur hún vonir við að sjá einhverja tengingu á milli þessara orða sem notuð hafa verið á báðum stöðum í árhundruðir.

Meg er með framleiðslu og sölu á garni frá búi sínu og fékk styrk að koma til Íslands til að læra frá íslenskum sauðfjárbændum og afla sér upplýsinga um íslenskar kindur og ullina. Hún er einnig teiknari og hefur fengið að láni hauskúpur af íslenskum kindum til að teikna eftir.

Umræður eftir fundinn snérust að mestu um ullina, hvernig hægt væri að koma henni í verð, hvar væri selt og hvar hún væri unnin. Mun Meg fara í heimsóknir á nokkra bæi til að fá frekari upplýsingar um sauðfjárbúskap og einnig til að leiðbeina um sölu á ullarvörum.

Það er hefð í listamiðstöðinni að halda svokallaðan "artist talk" í Kvennaskólanum í byrjun mánaðarins, þar sem listamenn kynni sig og listamannaferil sinn fyrir hvort öðru. Ákveðið var að færa kynninguna hjá Meg í sal Búnaðarsambandsins á Blönduósi og bjóða öllum áhugasömum að taka þátt. Það var ánægjulegt að sjá hversu margir sauðfjárbændur gáfu sér tíma til að mæta!

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga