Blönduós
Blönduós
Fréttir | 18. febrúar 2019 - kl. 17:58
Húsnæðismál stærsti þröskuldurinn

Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar sagði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag að stærsti þröskuldurinn í móttöku flóttafólks til Blönduóss verði að finna húsnæði, bæði til skamms og langs tíma. Blönduósbæjar hefur samþykkt að taka á móti 25 sýrlenskum flóttamönnum og er von á þeim kringum mánaðamótin apríl-maí. Valdimar sagði að þetta sé fjölskyldufólk, í flestum tilvikum foreldrar með eitt til þrjú börn. Næstu skref séu að skipuleggja móttökuna, stofna stuðningsfjölskyldur, gera ráðstafanir í skólum og félagsþjónustu og finna húsnæði.

Íbúum á Blönduósi hefur fjölgað hratt og ekki margar íbúðir á lausu en óskað hefur verið eftir samstarfi við Skagaströnd. „Þar gæti verið húsnæði og við erum saman í byggðasamlagi um skóla og félagsþjónustu,“ sagði Valdimar. Haldinn verður íbúafundur um verkefnið á Blönduósi í næstu viku. „Það er vissulega hér stórt samfélag af útlendingum, eins og Pólverjum og fleirum, sem hafa búið hér mis lengi. Þetta er bara verkefni til að ráðast í og við höfum ekki trú á öðru en að íbúar muni styðja þetta af heilum hug,“ sagði Valdimar í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga