Ömmukaffi. Ljósm: FB/Ömmukaffi
Ömmukaffi. Ljósm: FB/Ömmukaffi
Fréttir | 08. mars 2019 - kl. 06:47
Ömmukaffi opnar að nýju í dag

Nýir rekstraraðilar eru teknir við Ömmukaffi á Blönduósi en það eru þau Liya Behaga og Guðjón Ebbi Guðjónsson. Í samtali við Húnahornið segir Guðjón Ebbi að þau ætli að halda áfram því góða starfi sem Bryndís Sigurðardóttir og Birna Sigfúsdóttir hafa unnið undanfarin ár. Hann segir nýju fólki þó alltaf fylgja einhverjar breytingar og ætla þau að bæta aðeins í varðandi framboð og úrval af mat á staðnum. Stefna þau fljótlega að því að geta boðið upp á steikur og grænmetisrétti á matseðli.

Þá ætla þau einnig að halda regluleg þema-kvöld þar sem boðið er upp á t.d. sushi, eþíópískan mat eða sjávarrétti. Guðjón Ebbi segir að til að byrja með verði aðeins opið í hádeginu frá klukkan 11:45-14:00, og er fyrsti opnunardagurinn í dag, föstudagurinn 8. mars. „Við stefnum svo að því að lengja opnunartímann þegar við höfum náð að fullmanna allar stöður hjá okkur,“ segir Guðjón Ebbi og bætir við að búast megi við því að ísvélin verði sett í gang núna fyrir páskana.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga