Fréttir | 08. mars 2019 - kl. 10:55
Óánægja með frumvarp sem heimilar innflutning á hráu ófrosnu kjöti

Byggðarráð Húnaþings vestra lýsir yfir vonbrigðum með framkomið frumvarp sem heimilar innflutning á hráu ófrosnu kjöti, ferskum eggjum og ógerilsneyddum mjólkurvörum. Í umsögn byggðarráðs um frumvarpið eru stjórnvöld hvött til að kanna hvort endurskoða megi viðkomandi ákvæði innan EES samningsins með það að markmiði að sækja um undanþágu fyrir Ísland vegna lítillar notkunar á sýklalyfjum í landbúnaði og alþjóðlegra skuldbindinga hvað varðar verndun íslenskra búfjárkynja.

Byggðarráðið gagnrýnir einnig hversu skammt á veg undirbúningur fyrirhugaðra mótvægisaðgerða virðist vera kominn og krefur stjórnvöld um að innflutt kjöt og egg verði ekki leyst úr tolli fyrr en Mast hafi staðfest með sýnatöku að ekki séu sýklalyfjaónæmar bakteríur til staðar. Matvælaöryggi og lýðheilsa eigi alltaf að vega þyngra en viðskiptahagsmunir.

Þess má einnig geta þess að sveitarstjórn Húnavatnshrepps lagði fram bókun um sama mál á fundi sínum í síðustu viku og lýsti sveitarstjórn sömuleiðis yfir vonbrigðum með frumvarpið. Í fundargerð byggðaráðs Blönduósbæjar frá 6. mars síðastliðnum er tekið undir þessa gagnrýni og jafnframt lýsir ráðið yfir vonbrigðum með að ekki skuli hafa verið haldnir kynningarfundir fyrir bændur á Norðurlandi vestra.

Um hvað er frumvarpið?
Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum nr. 93/1995 um matvæli og lögum nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Árið 2007 tóku íslensk stjórnvöld ákvörðun um að heimila innflutning á ófrystu kjöti frá öðrum ríkjum EES og afnema þannig skilyrði fyrir innflutningi á tilteknum landbúnaðarafurðum innan EES í því skyni að tryggja stöðu Íslands á innri markaði EES. Þá skuldbindingu staðfesti Alþingi árið 2009 en þrátt fyrir það var íslenskum lögum ekki breytt til samræmis við þá skuldbindingu. Á síðustu tveimur árum hafa bæði EFTA-dómstóllinn og Hæstiréttur Íslands staðfest að íslensk stjórnvöld hafi með þessu brotið gegn skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum. Þá hefur skaðabótaskylda íslenska ríkisins vegna þessa verið staðfest. Með hliðsjón af því er lagt til með frumvarpinu að núverandi leyfisveitingarkerfi verði afnumið og er markmið breytinganna að íslensk stjórnvöld standi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist enda mikilvægt fyrir íslensk stjórnvöld að virða skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum og dómi EFTA-dómstólsins um túlkun hans sem og dómi Hæstaréttar Íslands.

Umsagnarfrestur í Samráðsgáttinni er runninn út en þar má sjá innsendar umsagnir sem eru um 70 talsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga